[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Alexander Gunnar Kristjánss. agunnar@mbl.is Einungis 31% innflytjenda sem innrituðust í framhaldsskóla árið 2004 hafði lokið námi sjö árum síðar, samanborið við 62% nemenda af íslenskum uppruna.

Sviðsljós

Alexander Gunnar Kristjánss.

agunnar@mbl.is

Einungis 31% innflytjenda sem innrituðust í framhaldsskóla árið 2004 hafði lokið námi sjö árum síðar, samanborið við 62% nemenda af íslenskum uppruna.

Þetta kom fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar menntamálaráðherra við fyrirspurn Nichole Leigh Mosty, þingmanns Bjartrar framtíðar. Í fyrirspurninni er farið fram á sundurliðun eftir kynjum og skólum á árunum 2010-2016. Þær tölur liggja hins vegar ekki fyrir þar sem upplýsingakerfi framhaldsskólanna, Inna, skráir ekki uppruna nemenda. Nýjustu upplýsingar frá Hagstofu Íslands taka til þeirra 4.830 nemenda sem hófu nám í framhaldsskólum haustið 2004. Af þeim nemendum hafði 2.961 útskrifast sjö árum síðar en 1.316 hætt námi, eða 27%. Mjög mikill munur er á brottfalli eftir uppruna nemenda. Mest er brottfallið hjá fyrstu kynslóð innflytjenda, eða 65%, samanborið við 26% hjá nemendum með engan erlendan bakgrunn. Minnst er brottfallið þó hjá íslenskum nemendum sem fæddir eru í útlöndum, eða 21%.

Boðar starfshóp

Nichole segir mikilvægt að bregðast við þessum mikla mun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé kveðið á um mikilvægi þess að efla stuðning við tvítyngda nemendur og kennslu í íslensku sem öðru máli og sú vinna sé nú rétt að hefjast. Hún á von á að setjast niður með ráðherra í sumar og ræða þær hugmyndir sem hún hefur og segir mögulegt að starfshópur verði skipaður á næstunni.

Þessi málaflokkur stendur Nichole nærri, en hún er sjálf fædd og uppalin í Bandaríkjunum og flutti hingað til lands árið 1999. Þá vann hún á leikskóla í mörg ár og var leikskólastjóri í fimm ár áður en hún settist á þing. Hún segist sjá mikinn mun á því hvernig börn meðtaki námsefni eftir því hvort þau hafi íslensku sem annað mál og eða læri málið frá fæðingu. Þetta sé mál sem hafi brunnið á henni lengi. Í grunnskólum séu nú um 10% barna tví- eða fjöltyngd, það sé of stór hluti til að gefa þeim ekki sérstakan gaum. „Við viljum ekki að 10% af börnum okkar komist ekki í gegnum framhaldsskóla,“ segir Nichole.

Gögnin ekki greind vegna manneklu

Aðspurð segist Nichole ósátt við hve gamlar tölur hafi fengist frá Hagstofunni og segir koma til greina að starfshópur verði settur af stað til að rýna í gögnin.

Ásta M. Urbancic hjá Hagstofu segir gögn stofnunarinnar um framhaldsskólanema bjóða upp á að brottfall sé sundurliðað eftir árgöngum og uppruna nemenda, eins og farið var fram á í fyrirspurninni. Hagstofan haldi bæði utan um nemendaskrá í framhaldsskóla og gagnagrunn um íbúa eftir uppruna og með því að samkeyra megi fá umbeðin gögn. Spurð hvers vegna slík greining hafi ekki farið fram nú, þegar fyrirspurnin barst, segir Ásta að starfsmenn stofnunarinnar hafi ekki séð sér fært að leggjast í þessa vinnu vegna manneklu. Því hafi ráðuneytið þurft að gera sér að góðu tölfræði um nemendur frá árinu 2004.

Gamlar tölur
» Nýjustu tölur eru um nemendur sem hófu nám 2004.
» Aðeins 38% karla höfðu útskrifast fjórum árum síðar samanborið við 52% kvenna.
» Brottfall úr framhaldsskóla er minnst meðal íslenskra nemenda sem fæddir eru erlendis.
» 12 konur útskrifast úr framhaldsskóla fyrir hverja 10 karla.