Elín Margrét Böðvarsdóttir elinm@mbl.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

elinm@mbl.is

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynntu í gær nýjan sáttmála um húsnæðismál með 14 aðgerðum til að bregðast við þeim vanda sem að er á húsnæðismarkaði. Við sama tækifæri undirrituðu Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, viljayfirlýsingu um aukið framboð lóða á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæðismarkaðurinn brást

Í samtali við mbl.is sagði Þorsteinn að að húsnæðismarkaðurinn hefði tvívegis á síðastliðnum áratugum brugðist fólkinu í landinu og með þessu verkefni væri verið að koma í veg fyrir að slíkt gerðist aftur. „Í stuttu máli er niðurstaðan sú að hér vantar 9.000 íbúðir á næstu þremur árum,“ sagði Þorsteinn.

Nokkrir þættir sem snúa að þessum aðgerðum felast í breytingu laga og reglna.

Þá verða gjaldtaka innviða eða samfélagsgjald skoðað og metið með það að markmiði að hvati verði til þess að byggja smærri íbúðir, en einnig er stefnt að því að settir verði hvatar til almennrar notkunar íbúðarhúsnæðis, m.a. innheimtu tómthúsagjalds og með skattalegum hvötum, fræðsla til leigjenda og leigusala verður aukin og regluverk byggingamála verður einfaldað.

Þá á einnig að flýta fyrir og fjölga sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk og leita leiða til þess að ná niður kostnaði við byggingu slíkra úrræða.

„Við ætlum að með þessum aðgerðum getum við hraðað því að jafnvægi náist aftur á fasteignamarkaði þannig að við metum þetta svo að með þessum aðgerðum myndi jafnvægi nást í kringum árið 2019,“ sagði Þorsteinn.