[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í San Marínó Kristján Jónsson kris@mbl.is Kvennalandsliðið í körfuknattleik sótti í sig veðrið á Smáþjóðaleikunum eftir tap í fyrsta leiknum gegn Möltu og landaði silfurverðlaunum.

Í San Marínó

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Kvennalandsliðið í körfuknattleik sótti í sig veðrið á Smáþjóðaleikunum eftir tap í fyrsta leiknum gegn Möltu og landaði silfurverðlaunum. Ísland vann í gær sannfærandi sigur á öflugu liði Lúxemborgar 59:44 og er það fyrsti sigur íslensku kvennanna á Lúx síðan 2009. Lið Lúxemborgar kom hingað með væntingar um að vinna körfuboltakeppnina en þarf að gera sér 3. sætið að góðu eftir töp gegn Íslandi og Möltu.

Pirringurinn leyndi sér ekki hjá leikmönnum Lúxemborgar þegar liðið var lent meira en tíu stigum undir gegn Íslandi í fyrri hálfleik, en að honum loknum var Ísland yfir 31:19. Dómaratríóið leyfði nokkra hörku en hún fór aldrei fram úr hófi. Eins og bæði úrslitin og hálfleikstölurnar gefa til kynna spiluðu okkar konur hörkuvörn og munu hafa gert lengst af á leikunum. Skotnýtingin brást hins vegar í fyrsta leiknum gegn Möltu en eftir það hefur verið stígandi í leik íslenska liðsins og liðið lauk leikunum á góðum nótum.

„Ég er mjög ánægð með þennan sigur. Við vorum allar tilbúnar í verkefnið og gáfum allt í þennan leik. Andinn á bekknum var geggjaður og baráttan var í lagi,“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir þegar Morgunblaðið tók hana tali að leiknum loknum. Sara skoraði 6 stig og tók 6 fráköst en hún skoraði 19 stig gegn Kýpur daginn áður. Sara segir landsliðskonurnar hafa náð að laga ýmislegt sem miður fór í fyrsta leiknum. „Við vorum ekki orðnar nógu samæfðar í fyrsta leiknum og þá sáum við hvað við þurftum að laga. Við vorum því betur undirbúnar í næsta leik. Við höfum spilað betur og betur saman með hverjum leiknum,“ sagði Sara, sem er hálfnuð með nám sitt í Bandaríkjunum, en af þeim sökum gat hún ekki leikið með landsliðinu í síðustu undankeppni EM.

Ívar tók tapið á sig

Landsliðsþjálfarinn, Ívar Ásgrímsson, tók undir það að stígandi hefði verið í leik liðsins á leikunum. Hann segir ekki hægt að horfa framhjá því að ferðalagið langa og umtalaða hafi haft áhrif á hans konur í fyrsta leiknum sem tapaðist gegn Möltu. Hann segist sjálfur bera ábyrgðina á því tapi.

„Við erum að verða betri og betri. Við vissum að ekki væru allir leikmenn í leikæfingu því við erum til dæmis með leikmenn sem ekki hafa spilað í þrjá mánuði. Á móti Möltu voru leikmenn bara örþreyttir. Ferðalagið hafði mikil áhrif á leikmenn. Ég tek hins vegar það tap á mig. Við hefðum átt að hvíla betur eftir komuna til San Marínó. Ég tók hins vegar þá ákvörðun að taka æfingu og láta leikmenn teygja og liðka sig. Eftir á að hyggja var kannski mikilvægara að hvíla bara alfarið. En maður veit ekki hvað skal gera í slíkri stöðu eftir 46 tíma ferðalag. Þetta var ekki bara „planes, trains and automobiles“ því þetta var líka „boat“. Við tókum allan pakkann,“ sagði Ívar og brosti en þar vísar hann í titil frægrar gamanmyndar með John Candy og Steve Martin. „En stelpurnar gáfust ekkert upp eftir erfitt ferðalag og tap fyrir Möltu. Mér finnst frábær karakter einkenna þessar stelpur og þær eiga heiður skilinn,“ bætti Ívar við.

Leikmannahópurinn á Smáþjóðaleikunum er á margan hátt nýtt landslið. Kornungu Íslandsmeistararnir úr Keflavík voru teknar inn í liðið og þá voru Sara og Hildur Björg Kjartansdóttir með en misstu af síðustu undankeppni. Einnig eru reyndir leikmenn ekki í hópnum af ýmsum ástæðum, eins og Gunnhildur Gunnarsdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, María Ben Erlingsdóttir, Petrúnella Skúladóttir og Margrét Kara Sturludóttir. Liðið hefur því verið yngt töluvert upp.