Í dag og á morgun stendur yfir handknattleikshátíð í Köln í Þýskalandi. Fjögur fremstu karlalið álfunnar reyna með sér og sigurliðið verður krýnt Evrópumeistari annað kvöld að loknum úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Í dag og á morgun stendur yfir handknattleikshátíð í Köln í Þýskalandi. Fjögur fremstu karlalið álfunnar reyna með sér og sigurliðið verður krýnt Evrópumeistari annað kvöld að loknum úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Auk þeirra eru forsvarsmenn og þjálfarar flestra bestu og stærstu handknattleiksliða Evrópu sem láta sig ekki vanta á úrslitahelgina þótt lið þeirra taki ekki þátta. Helstu landsliðsþjálfarar Evrópu eru einnig viðstaddir, framkvæmdastjórar og formenn handknattleikssambanda. Elítan í evrópskum handknattleik er hér í borginni. Vafalítið er vélað um íþróttina í reykfylltum bakherbergjum.

Um 40.000 manns sækja viðburðinn, sem gerir hann að einum fjölmennasta innanhúss íþróttaviðburði í Evrópu ár hvert.

Aðeins einn Íslendingur stendur í eldlínunni á leikvellinum að þessu sinni, Aron Pálmarsson, með ungverska meistaraliðinu Veszprém. Liðið freistar þess að vinna eina titilinn sem það hefur ekki unnið og reyndar mátt sætta sig við tap í úrslitaleik í síðustu tvö skipti.

Íslendingar hafa alltaf verið fleiri á keppnisvellinum en nú síðan núverandi keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 2010. Hins vegar kemur það ekki í veg fyrir að sennilega hafa aldrei verið fleiri Íslendingar meðal áhorfenda en nú. Menn og konur koma ár eftir ár og nýir bætast í hópinn ár hvert. „Maður ánetjast þessari handboltahátíð við fyrstu heimsókn,“ sagði Íslendingur sem varð á vegi mínum í miðborg Kölnar í gærmorgun. Ég gat ekki mótmælt vegna þess að ég er einn þeirra sem hafa ánetjast.