— Morgunblaðið/RAX
3. júní 1844 Síðustu tveir geirfuglarnir í heiminum voru drepnir á syllu við Eldey, suðvestur af Reykjanesi. Þetta voru stórir en ófleygir fuglar af svartfuglaætt. 3. júní 1937 Flugfélag Akureyrar var stofnað.

3. júní 1844

Síðustu tveir geirfuglarnir í heiminum voru drepnir á syllu við Eldey, suðvestur af Reykjanesi. Þetta voru stórir en ófleygir fuglar af svartfuglaætt.

3. júní 1937

Flugfélag Akureyrar var stofnað. Nafni þess var síðar breytt í Flugfélag Íslands (hið þriðja með því nafni). Það sameinaðist Loftleiðum undir nafni Flugleiða hf. árið 1973.

3. júní 1989

Jóhannes Páll páfi II. kom til Íslands. Þetta var fyrsta heimsókn trúarleiðtoga kaþólskra manna til landsins. Við komuna sagði hann: „Íslendingar hafa mikið að gefa heimi sem þyrstir í sannleika og vill setja réttlæti, frið og samkennd allra manna í hásætið.“ Páfi tók meðal annars þátt í samkirkjulegri athöfn á Þingvöllum og söng messu utan við Landakotskirkju. Þúsundir manna sóttu messuna.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson