Sundruð Evrópa eða Bandaríki Trumps?

Það er kannski ekki við öðru að búast en að rúmlega 70 árum frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari sjáist merki um breytingar á þeirri heimsmynd sem við höfum búið við frá því að þeim hildarleik lauk.

Fátt hefur vakið meiri athygli í seinni tíð um heimsbyggðina alla en þau ummæli Angelu Merkel, kanslara Þýzkalands, að loknum tveimur fundum með Donald Trump, leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins og fundi leiðtoga G-7 ríkja, að nú væri kominn tími á að Evrópuþjóðirnar sæju um sig og að þær gætu ekki lengur treyst á Bandaríkjamenn og Breta. Trump neitaði að staðfesta þann grundvallarþátt í starfi Atlantshafsbandalagsins að árás á eitt aðildarríki jafngilti árás á þau öll.

Evrópa hefur til þessa dags notið þess öryggis sem felst í hernaðarlegum yfirburðum Bandaríkjamanna. En nú virðast vera breyttir tímar.

Sameiginlega hafa aðildarríki ESB yfirburðastöðu t.d. í samanburði á milli ríkja og ríkjaheilda um verga landsframleiðslu.

Evrópuríkin hafa hins vegar farið sér hægt í að endurspegla þann efnahagslega styrkleika í hernaðarlegum mætti. Til marks um það eru þær hremmingar sem sum þessara ríkja lentu í þegar þau fóru að hafa afskipti af átökunum í Líbíu fyrir nokkrum árum. Bandaríkjamenn voru tregir til afskipta á þeim tíma þannig að Bretar og Frakkar voru þar framarlega í flokki. Þá kom í ljós að hernaðarmáttur þeirra var ekki meiri en svo, að þeir urðu fljótlega uppiskroppa með skotfæri! Og urðu að fá þau lánuð hjá Bandaríkjamönnum auk þess sem í ljós kom að upplýsingaöflun þeirra (þ.e. njósnastarfsemi) reyndist ekki upp á marga fiska.

Þessu er öfugt farið með Rússa. Þeir eru í efnahagslegu tilliti risi á brauðfótum en þeir eru hernaðarveldi sem ekki verður gert lítið úr og þá ekki sízt vegna kjarnorkuvopna. Þegar Bretar hafa yfirgefið ESB verður bara eitt kjarnorkuveldi eftir í Evrópu, sem eru Frakkar.

Það kann því vel að vera að þegar Merkel segir að nú verði Evrópuríkin að fara að sjá um sig og standa á eigin fótum felist í þeim orðum að þau verði að fara að vígbúast í ríkari mæli en þau hafa gert. Og það á kannski fyrst og fremst við um Þjóðverja sjálfa, sem hafa verið feimnir við að sýna þá hlið á sér í 70 ár.

En þótt svona sé staðan á yfirborðinu er ekki allt sem sýnist. Það er mjög langt síðan Evrópa hefur verið jafn sundruð og nú. Það á ekki bara við um þau augljósu átök sem staðið hafa á milli ríkja í Norður-Evrópu og Suður-Evrópu. Margvísleg óánægja er byrjuð að grafa um sig meðal þeirra aðildarríkja ESB sem áður voru leppríki Sovétríkjanna. Og þar að auki er raunveruleg stríðshætta orðin til á ný á Balkanskaga og alls ekki hægt að útiloka að ný átök brjótist þar út.

Það er því ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að ESB-ríkin standi sameinuð að baki yfirlýsingu Merkel, þótt líklegt sé hins vegar að Frakkar muni standa fast með Þjóðverjum.

Einn þáttur í viðbót kemur svo inn í þessa mynd. Það hefur alltaf verið til staðar bæði í Þýzkalandi og Frakklandi það sjónarmið að þessi ríki hljóti að leggja áherzlu á viðunandi samstarf við Rússa, bæði á meðan á kalda stríðinu stóð og líka eftir að því lauk. Það er skiljanlegt. Það hlýtur að vera betri kostur fyrir nágranna að búa í sæmilegum friði heldur en að eiga í stöðugum erjum.

Þetta viðhorf lá til grundvallar afstöðu Willy Brandt til Sovétríkjanna á sínum tíma. Og ekki ólíklegt að nú muni áþekkar raddir heyrast á ný í Þýzkalandi.

Það getur því ýmislegt átt eftir að gerast í kjölfar yfirlýsingar Angelu Merkel og er reyndar byrjað að koma fram í meiri samstöðu á milli Evrópuríkja og Kína í loftslagsmálum. Það skyldi þó aldrei vera að Bandaríkjamenn verði skildir eftir einangraðir í þeim málaflokki?

Fyrir okkur Íslendinga er þessi nýja staða ekki alveg einfalt mál. Við liggjum miðja vegu á milli Evrópu og Bandaríkjanna og höfum horft til beggja átta. Átt mikil pólitísk samskipti og viðskiptaleg tengsl við Evrópuríkin en reitt okkur á samstarf við Bandaríkin í öryggismálum og höfum af því góða reynslu.

Á dögunum vék Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, að þessu augljósa álitamáli og eins og við mátti búast var niðurstaða hans sú að hin ný staða væri rök fyrir enn meira samstarfi okkar við Evrópuríkin.

Það er hins vegar grundvallarmisskilningur hjá Benedikt. Evrópa öll er í slíku uppnámi og víðsjár í öllum hornum að það væri ekkert vit í því fyrir Ísland að halla sér enn meir að Evrópu við þær aðstæður. Það væri raunar fullkomið glapræði að blanda sér í þau erfiðu viðfangsefni sem Evrópuríkin standa frammi fyrir.

Hins vegar munu margir hugsa á þann veg að það sé heldur ekki fýsilegur kostur að eiga mikið undir Bandaríkjum Donalds Trump og það er skiljanleg afstaða.

En forsetar koma og fara. Hin „strategíska“ staða Íslands breytist hins vegar ekki. Eftir stendur að við eigum mikilla hagsmuna að gæta hér í Norður-Atlantshafi. Það eiga Norðmenn líka, svo og Færeyingar, Grænlendingar, Skotar og Kanadamenn, auk Bandaríkjamanna sjálfra, bæði vegna Alaska og stærri hagsmuna.

Sundruð Evrópuríki verða aldrei sá björgunarhringur sem við þurfum á að halda. Þess vegna hlýtur niðurstaða fyrrnefndra ríkja í Norður-Atlantshafi að verða sú, að náið samstarf við Bandaríkin og Kanada hljóti að vega þyngst þegar við horfum til langtímahagsmuna okkar.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is