Köln Aron Pálmarsson ræðir við fréttamenn á kynningarfundi „Final Four“ í Köln í gær.
Köln Aron Pálmarsson ræðir við fréttamenn á kynningarfundi „Final Four“ í Köln í gær. — Ljósmynd/EHF
Í KÖLN Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Það er nokkuð augljóst hjá þessu liði að ekkert annað kemur til greina en að vinna þessa keppni.

Í KÖLN

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Það er nokkuð augljóst hjá þessu liði að ekkert annað kemur til greina en að vinna þessa keppni. Að vinna Meistaradeild Evrópu á þessu keppnistímabili þessa er skýrt markmið okkar,“ sagði Aron Pálmarsson þegar Morgunblaðið hitti hann að máli í Radisson-hótelinu í Köln í gær. Þar og í íþróttasölum borgarinnar hafa Aron og samherjar í ungverska meistaraliðinu Veszprém búið sig undir úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í handknattleik ásamt leikmönnum Paris SG, Barcelona og Vardar frá Makedóníu. Fjögur bestu handknattleikslið Evrópu í karlaflokki eru mætt til leiks. Vart má á milli sjá hvert þeirra er öflugast um þessar mundir.

Aron og félagar mæta franska meistaraliðinu Paris SG í fyrri undanúrslitaleiknum í dag, sem hefst klukkan 13.15. Vardar og Barcelona eigast við í hinni viðureigninni. Sigurliðin mætast í úrslitaleik sem hefst klukkan 16 á morgun.

Það eina sem er eftir

Sigur í Meistaradeild Evrópu er nánast það eina sem Veszprém-liðið vantar í sigursæla sögu sína á þessari öld, þar sem liðið hefur m.a. orðið ungverskur meistari tíu ár í röð og unnið bikarkeppnina í heimalandinu oftar en menn orðið muna auk þess að vinna oftar en ekki Austur-Evrópudeildina. Veszprém hefur tekið þátt í úrslitahelgi Meistara deildar þrjú síðustu ár, aldrei unnið en tvö síðustu ár tapað í úrslitaleik, árið 2015 fyrir Barcelona og í fyrra á móti Kielce eftir að hafa verið með yfirburði og níu marka forskot stundarfjórðungi fyrir leikslok. Pólskiptin á þeirri viðureign eru ein þau mögnuðustu í handknattleikssögunni.

„Sigurlaunin í Meistaradeildinni eru það eina sem vantar í verðlaunasafnið. Það er orðið regla fremur en undantekning að vinna önnur mót sem liðið tekur þátt í. Þess vegna er allt lagt í sölurnar og ekkert til sparað að vinna æðstu sigurlaun í félagakeppni í Evrópu,“ sagði Aron.

„Eftir klúðrið í fyrra og tap fyrir Barcelona fyrir tveimur árum hafa menn komist afar nálægt þeim stóra. Í þann bikar hungrar alla,“ sagði Aron enn fremur, en hann hefur tvisvar verið í sigurliði Meistaradeildar, 2010 og 2012 með Kiel. Aron hefur hins vegar verið í silfurliði keppninnar tvisvar sinnum, í fyrra og árið 2014 þegar Kiel tapaði í úrslitaleik fyrir Flensburg.

Það verður ekki annað hrun

„Í fyrra vorum við orðnir meistarar þegar 45 mínútur voru liðnar af úrslitaleiknum við Kielce. Þá lékum við frábærlega í þrjá stundarfjórðunga en síðan hrundi leikur okkar til grunna á síðasta fjórðungi leiksins. Það sem gerðist hefur ekki verið rætt sérstaklega innan leikmannahópsins,“ sagði Aron og bætir við að í ljósi sögunnar sé undirbúningur liðsins fyrir helgina alls ekkert frábrugðinn því sem var í fyrra.

„Við hentum bara sigrinum frá okkur í fyrra. Nú erum við reynslunni ríkari. Ef við verðum með níu marka forskot korteri fyrir leikslok í úrslitaleiknum á sunnudaginn, það er ef við komumst í hann, munum við ekki spila rassinn úr buxunum. Ég get lofað þér því,“ sagði Aron Pálmarsson, leikmaður Veszprém, sem segist vera við hestaheilsu fyrir átök helgarinnar í Lanxess-Arena í Köln.

Meistaradeild Evrópu
» Keppnin fór fyrst fram keppnistímabilið 1993/1994.
Teka Santander frá Spáni vann keppnina fyrsta árið.
» Barcelona er sigursælasta lið Meistaradeildar. Katalóníuliðið hefur unnið átta sinnum, 1996-2000, 2005, 2011 og 2015.
» Vive Kielce frá Póllandi vann Meistaradeildina fyrir ári.