Ferðamenn Þjónustuútflutningur jókst um 11,3% á fyrsta fjórðungi.
Ferðamenn Þjónustuútflutningur jókst um 11,3% á fyrsta fjórðungi. — Morgunblaðið/Ómar
Þjónustujöfnuður var 43,1 milljarður króna á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í vikunni. Það er 44% meiri afgangur á þjónustuviðskiptum en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Þjónustujöfnuður var 43,1 milljarður króna á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í vikunni. Það er 44% meiri afgangur á þjónustuviðskiptum en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Í umfjöllun í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans um þróun þjónustuviðskipta er bent á að án vaxtar í ferðaþjónustu hefði jöfnuðurinn dregist saman.

Þjónustuútflutningur nam 126 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi og jókst um 11,3% á milli ára. Landsbankinn bendir á að hlutdeild ferðaþjónustu í þjónustuútflutningi hafi verið um 72% í síðasta fjórðungi, en til samanburðar var þetta hlutfall 49% árið 2013.

Ferðaþjónusta í þjónustujöfnuði skiptist annars vegar í ferðalög, sem eru öll útgjöld erlendra ferðamanna hér á landi, og hins vegar farþegaflutninga með flugi, sem eru útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra flugfélaga hvort sem þeir koma hingað til lands eða ekki. Landsbankinn bendir á að á síðustu árum hefur liðurinn ferðalög vegið mun þyngra til aukningar útflutnings en farþegaflutningar, sem rekja má til gríðarlegrar fjölgunar erlendra ferðamanna hér á landi á síðustu árum. Farþegaflutningar hafa á hinn bóginn þróast meira í takt við alþjóðlegan vöxt ferðaþjónustu í heiminum.

Þjónustuinnflutningur nam 83 milljörðum króna og dróst lítillega saman á milli ára.