Tækifæri Á Smáþjóðaleikunum 2007 fékk 16 ára gömul stúlka, Hrafnhildur Lúthersdóttir, tækifæri. Níu árum síðar hafði hún náð í úrslit á ÓL og HM.
Tækifæri Á Smáþjóðaleikunum 2007 fékk 16 ára gömul stúlka, Hrafnhildur Lúthersdóttir, tækifæri. Níu árum síðar hafði hún náð í úrslit á ÓL og HM. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í San Marínó Kristján Jónsson kris@mbl.is Við erum smáþjóð. Um það þarf ekki að rífast. Það liggur fyrir. Reyndar kallar Baldur Þórhallsson það smáríki í stjórnmálafræðinni þótt ólympíuhreyfingin tali um smáþjóðir en kemur í sama stað niður.

Í San Marínó

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Við erum smáþjóð. Um það þarf ekki að rífast. Það liggur fyrir. Reyndar kallar Baldur Þórhallsson það smáríki í stjórnmálafræðinni þótt ólympíuhreyfingin tali um smáþjóðir en kemur í sama stað niður. Fólksfjöldans vegna verður alltaf erfitt fyrir okkur að skara fram úr í íþróttum á alþjóðavísu. Ekki útilokað en mjög erfitt. Við erum alsæl yfir því að komast í 8-liða úrslit á Evrópumóti í fótbolta vegna þess að við erum smáþjóð. Okkar menn og konur gerðu allt sem þeir gátu til að ná úrslitum á þeim mótum jafnvel þótt þau hafi fengið 4 og 5 mörk á sig í síðustu leikjunum. Fjölmennar þjóðir yrðu ekki alsælar yfir því. Við erum stolt þótt við töpum öllum leikjunum á Evrópumóti í körfubolta. Okkar menn gerðu allt sem þeir gátu til að ná úrslitum. Fjölmennar þjóðir væru ekki stoltar af því.

Af því að við erum smáþjóð þá tökum við þátt í Smáþjóðaleikunum. Þar erum við nokkurn veginn á jafnréttisgrundvelli ef horft er til höfðatölunnar margfrægu. Sumar þjóðir á leikunum hafa færri íbúa og sumar fleiri. San Marínó er til dæmis með svipaðan íbúafjölda og Kópavogur en Lúxemborg er nærri því helmingi fjölmennari en Ísland.

Fyrir okkar íþróttafólk, sem nær í allra fremstu röð í Evrópu, eins og Hrafnhildur, Eygló og Ásdís hafa gert, verður árangurinn á Smáþjóðaleikunum ekki það sem stendur upp úr þegar ferlinum lýkur. Leikarnir hafa hins vegar töluvert að segja þegar kemur að því að búa okkar fólk undir keppni erlendis og einnig varðandi ýmis vinnubrögð, eins er lúta að afreksíþróttum.

Nýtist í þróun afreksfólks

Á Smáþjóðaleikunum fær margt íslenskt íþróttafólk tækifæri til að kynnast keppni á erlendum vettvangi gegn erlendum andstæðingum. Margt af þessu íþróttafólki er ungt að árum og á jafnvel bjarta framtíð í íþrótt sinni. Það er hins vegar ekki endilega komið á þann stað að komast inn á Evrópu- eða heimsmeistaramót. Stórmót sem kennd eru við æskuna eru ekki mjög oft og hugmyndin um Evrópuleika virðist ekki ná flugi þrátt fyrir að Asíu- og Ameríkuleikar dafni ágætlega. Þess vegna getur þessi vettvangur smáþjóðanna verið mjög mikilvægur í þróun efnilegs íslensks íþróttafólks og það í fjölmörgum greinum á einu bretti.

Ungt og efnilegt íþróttafólk fær þá tækifæri til að keppa við hlið eldra og reyndara íþróttafólks og getur lært af þeim. Hversu mikils virði ætli það sé fyrir 16 eða 17 ára gamla sundkonu að geta fylgst með vinnubrögðunum hjá Eygló og Hrafnhildi á slíku móti? Sennilega má líkja því við mikilvægi þess fyrir Aron Pálmarsson að Ólafur Stefánsson var enn í landsliðinu þegar Aron var tekinn inn í hópinn.

Sérstakur heimur

Annað sem gæti reynst dýrmætt er reynslan sem fólk fær af því að keppa á alþjóðlegu fjölgreinamóti. Þar gengur fólk inn í heim sem erfitt er að útskýra fyrir þeim sem ekki hafa upplifað. Hótel, matartjald, rútuferðir, mannvirki, fundir, svefn, æfingar, keppni í visst langan tíma. Fjölmiðlamenn, ljósmyndarar og myndatökufólk einnig rápandi um með tilheyrandi leiðindum og mögulega fullt af áhorfendum, allt eftir stemningu meðal heimamanna. Einhvern tíma þarf fólk sem getur náð langt að kynnast slíku og á Smáþjóðaleikunum fær það ágætan skammt. Umfram allt fær okkar fólk einnig tækifæri til að sjá hvar það stendur. Ef allar eða langflestar viðureignir tapast í einhverri grein í keppni við smáþjóðir þá er það himinhrópandi vísbending um að við eigum erfitt uppdráttar í þeirri grein.

Þar sem um er að ræða fjölgreinamót þá getur einnig fróðleikur borist á milli íþróttagreina um hvernig best er að útfæra eitt og annað. Til dæmis í þjálfun. Þegar ég horfi á fólkið okkar í blaki og körfubolta þá sýnist mér margir leikmenn geta lært eitt og annað af frjálsum um líkamlegt atgervi. Á móti sem þessu er ÍSÍ auk þess með lækni, sjúkraþjálfara og sálfræðing. Allt fólk með yfirgripsmikla reynslu af stórmótum eins og sjálfum Ólympíuleikunum. Þar er einnig mikil þekking sem hægt er að leita í til að reyna að bæta árangur sinn. Án Smáþjóðaleikanna er ég ekki viss um að leiðir keppenda okkar og þjálfara í hjólreiðum, sundi og bogfimi myndu liggja mikið saman svo einhvers konar dæmi sé tekið.

Aðstaðan batnar

Verandi þátttakandi í þessu verkefni þá tekur Ísland að sér að halda leikana eins og aðrir. Gerist það með tveggja áratuga millibili eða svo. Mótshaldið verður til þess að aðstaða fyrir þessar íþróttagreinar verður betri heima á Íslandi. Þeir sem stunda greinarnar njóta þess þar af leiðandi mjög.