Jarðefnaeldsneyti Hópur fólks mótmælti ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta á götu úti í New York.
Jarðefnaeldsneyti Hópur fólks mótmælti ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta á götu úti í New York. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Ákvörðun Bandaríkjanna þess efnis að segja sig frá Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál er mjög miður og þegar ég segi það er ég að tjá mig mjög varfærnislega,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Ákvörðun Bandaríkjanna þess efnis að segja sig frá Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál er mjög miður og þegar ég segi það er ég að tjá mig mjög varfærnislega,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari.

Vísar hún í ummælum sínum til ákvörðunar ríkisstjórnar Donalds Trump Bandaríkjaforseta, en forsetinn lýsti þessari stefnubreytingu Bandaríkjanna yfir á blaðamannafundi sem haldinn var á lóð Hvíta hússins í fyrradag. Frá því að yfirlýsingin féll hafa þjóðarleiðtogar um heim allan, ráðherrar og önnur fyrirmenni lýst yfir undrun sinni og óánægju með afstöðu ráðamanna vestanhafs í loftslagsmálum.

„Sáttmálinn er óafturkræfur“

„Ákvörðunin má og mun ekki stöðva okkur hin í því að vernda plánetuna okkar. Þvert á móti. Við í Þýskalandi, Evrópu og annars staðar í heiminum erum nú sem aldrei fyrr ákveðin í að sameina alla krafta okkar til að mæta einni af helstu áskorunum mannkyns,“ sagði Merkel enn fremur í ávarpi sínu.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi í gær. Þar sagði hann Frakkland ekki hafa sagt sitt síðasta orð í umræðunni. „Ég get fullvissað ykkur um þetta – Frakkland mun ekki hætta baráttunni. Parísarsáttmálinn er óafturkallanlegur og verður innleiddur, ekki aðeins af Frakklandi heldur öllum öðrum ríkjum,“ sagði Macron. „Ég bið ykkur um að sýna áfram sjálfsöryggi. Okkur mun takast þetta því við erum heils hugar. Hvar sem við búum og hver sem við erum deilum við öll sömu ábyrgð. Gerum plánetuna okkar aftur frábæra,“ bætti Macron við og afbakaði þannig þekkt slagorð Donalds Trump úr kosningabaráttu hans.

Varðar heiminn allann

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði ráðamenn þar vonsvikna með ákvörðun ríkisstjórnar Bandaríkjanna. „Kanada stendur staðfastlega við skuldbindingar sínar þess efnis að berjast gegn loftslagsbreytingum og styðja hreinan efnahagslegan vöxt,“ sagði hann.

Forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, tekur í sama streng og segir ákvörðunina „vonbrigði en ekki óvænta“. Að sögn hans mun Ástralía hins vegar standa við sínar skuldbindingar í loftslagsmálum.

Þá hafa ráðamenn á Indlandi, í Brasilíu og Kína einnig lýst því yfir að ríki þeirra muni standa við gefin loforð. „Loftslagsmál varða heiminn allan og því getur ekkert eitt ríki haldið sig þar fyrir utan,“ sagði Hua Chunying, talsmaður utanríkisráðherra Kína. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hvatti í gær ríki heims til að vinna með Bandaríkjunum í stað þess að „dæma“ þau.