Afmælisbarnið Við Jökulsárlón.
Afmælisbarnið Við Jökulsárlón.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rakel Garðarsdóttir fæddist í Ósló 3.6. 1977 en ólst upp í Skaftahlíðinni í Reykjavík. Hún þurfti ekki að fara langt í skólann því hún var í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraskólans sem báðir eru í allra næsta nágrenni og stundaði síðan nám við MH.

Rakel Garðarsdóttir fæddist í Ósló 3.6. 1977 en ólst upp í Skaftahlíðinni í Reykjavík. Hún þurfti ekki að fara langt í skólann því hún var í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraskólans sem báðir eru í allra næsta nágrenni og stundaði síðan nám við MH. Þá var hún eitt ár í Gommerud-skóla í Bærum í Noregi og stundaði síðar nám í lögfræði við HR: „Á æskuárunum fórum við reglulega á sumrin til Noregs og ég hlakkaði alltaf til að fara til Ömmu Stjörnu á Stranda.“

Á menntaskólaárunum starfaði Rakel á Grund, hjá ÁTVR, á Café au lait og á Kaffibarnum. Hún ferðaðist með vinkonum sínum um Skandinavíu árin 1995 og 1996 og vann þar jafnframt ýmis störf sem til féllu.

Rakel hefur unnið með Vesturporti frá 2003 og komið þar að uppsetningu fjölda leiksýninga og framleiðslu á sjónvarpsefni, kvikmyndum og heimildarmyndum.

Rakel stofnaði Vakandi – samtök til að efla vitundarvakningu um matarsóun árið 2014. Hún hefur gefið út bók um málefnið, Vakandi Veröld, ásamt Margréti Marteinsdóttur. Þá hefur hún stýrt sjónvarpsþætti og kemur reglulega fram í Mannlega þættinum, alla fimmtudaga, á Rás 1, þar sem rætt er um umhverfismál og hvernig við getum nýtt betur og sóað minna.

Rakel var valin framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2015, en verðlaunin eru á vegum JCI Ísland.

Árið 2016 stofnaði Rakel Verandi, ásamt Elvu Björk Barkardóttur: Húð- og hárvörur sem eru unnar úr hráefni sem fellur til við aðra framleiðslu og hefur vefsíðuna www.verandi.is.

Rakel og Hrefna Sætran komu svo á fót Vakandi barnamat, fyrsta íslenska barnamatnum í krukkum.

Rakel heldur víða fyrirlestra um matarsóun og situr í hinum ýmsu nefndum og ráðum því tengdum.

Rakel er Hringskona og stofnaði á sínum tíma fótboltafélagið FC Ógn. Helstu áhugamál hennar snúast ekki síst um það að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn betri en hann hefur verið hingað til: „Svo finnst mér ótrúlega gaman að vera með vinum mínum og fjölskyldu.“

Fjölskylda

Eiginmaður Rakelar er Björn Hlynur Haraldsson, f. 8.12. 1974, leikari, leikstjóri og handritahöfundur. Foreldrar hans: Björg Ingólfsdóttir, f. 3.10. 1936, og Haraldur Gíslason, f. 28.9. 1928, d. 30.1. 1983.

Sonur Rakelar og Jonathans Devaney, f. 1970, kvikmyndatökumanns, er Emil Adrian Devaney, f. 15.7. 2003, nemi.

Stjúpdóttir Rakelar og dóttir Björns Hlyns er Hlín Björnsdóttir, f. 23.2. 2001, nemi.

Sonur Rakelar og Björns Hlyns er Jón Marlon Björnsson, f. 22.7. 2016.

Systkini Rakelar eru Gísli Örn Garðarsson, f. 15.12. 1973, leikari, leikstjóri og framleiðandi, búsettur á Seltjarnarnesi, og Ágústa Einarsdóttir, 31.3. 1972, búsett í Kópavogi.

Foreldrar Rakelar eru Lilja Kolbrún Högnadóttir, f. 20.1. 1952, sjúkraliði og fjármálastjóri Vesturports, og Garðar Gíslason, f. 30.1. 1952, félagsfræðingur, kennslubókahöfundur og framhaldsskólakennari í Kópavogi.