Léttleiki í þingsal Birgir Ármannsson og Svandís Svavarsdóttir eru hér greinilega að fara með gamanmál.
Léttleiki í þingsal Birgir Ármannsson og Svandís Svavarsdóttir eru hér greinilega að fara með gamanmál. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Þingfundum 146. löggjafarþings var frestað 1. júní síðastliðinn. Þingfundir falla nú niður í rúma þrjá mánuði því Alþingi á að koma saman að nýju þriðjudaginn 12. september næstkomandi.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Þingfundum 146. löggjafarþings var frestað 1. júní síðastliðinn. Þingfundir falla nú niður í rúma þrjá mánuði því Alþingi á að koma saman að nýju þriðjudaginn 12. september næstkomandi.

Í yfirliti á heimasíðu Alþingis kemur fram að þingið var að störfum frá 6. til 22. desember 2016 og frá 24. janúar til 1. júní 2017. Þingfundir voru samtals 79 og stóðu í rúmar 383 klukkustundir. Meðallengd þingfunda var 4 klukkustundir og 51 mínúta. Lengsti þingfundurinn stóð í 15 klst. og 32 mín. Lengsta umræðan var um fjármálaáætlun 2018-2022 sem stóð samtals í rúmar 42 klukkustundir. Þingfundadagar voru alls 61.

Af 131 frumvarpi urðu alls 53 að lögum, 78 voru óútrædd. Af 95 þingsályktunartillögum voru 23 samþykktar, 72 tillögur voru óútræddar.

305 skriflegar fyrirspurnir voru lagðar fram og var 192 þeirra svarað og 96 bíða svars er þingi var frestað en 17 voru felldar niður vegna ráðherraskipta.

Þingmál til meðferðar í þinginu voru 627 og tala prentaðra þingskjala var 1.087 þegar þingi var frestað

Segir að Alþingi þurfi meira fjármagn

„Hér á Alþingi þarf forysta þingsins að fara yfir reynsluna af umfjöllun nefnda um fjármálaáætlun,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, m.a. í ávarpi sínu við frestun þingfunda.

„Ég tel jafnframt einsýnt að styrkja þurfi þjónustu við nefndir þingsins og tryggja að þingmenn fái nauðsynlega aðstoð til að geta lagt sjálfstætt mat á ýmsa þætti áætlunarinnar. Til að svo megi verða þarf Alþingi aukið fjármagn. Við þurfum einnig að endurskoða starfsáætlun Alþingis með tilliti til fjármálaáætlunarinnar. Reynslan í ár sýnir að gefa þarf henni meira rými í vinnuskipulagi þingsins. En á móti er líka ljóst að fjárlagameðferðin á haustþingi ætti að geta styst og jafnvel ætti að vera mögulegt að afgreiða fjárlög fyrr en verið hefur. Slíkt væri til mikilla bóta fyrir alla aðila sem þurfa að skipuleggja starfsemi sína á grundvelli fjárlaga hvers árs,“ sagði Unnur Brá.

Hún sagði jafnframt að fjármálaáætlunin hefði kallað á breytt verklag við fjárlagagerð, bæði í ráðuneytum og á Alþingi. Ljóst sé að allt ferlið eigi eftir að slípa enn betur, bæði undirbúning við gerð fjármálaáætlunar í Stjórnarráðinu og meðferð málsins í þinginu. „Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í vikunni um að flýta eigi framlagningu fjármálaáætlunar svo meiri tími gefist til umfjöllunar þingsins.“

Unnur Brá sagði að aldrei fyrr hefðu jafn margir þingflokkar verið á Alþingi sem gerði erfiðara en áður að koma öllum fyrir í því takmarkaða húsnæði sem þingið hefur. „Það er því verulegt tilhlökkunarefni að á árinu 2020 á að taka nýja byggingu í notkun sem mun bæta aðstöðu alþingismanna og auka sveigjanleika í nýtingu húsnæðis þegar þingflokkar ýmist stækka eða minnka, verða til eða hverfa, og leiða til verulegrar hagkvæmni í rekstri Alþingis,“ sagði þingforsetinn.