Nicolás Maduro
Nicolás Maduro
Stjórnarandstöðuflokkarnir í Venesúela fögnuðu í gær mikilli þátttöku í táknrænni þjóðaratkvæðagreiðslu sem þeir höfðu boðað til.

Stjórnarandstöðuflokkarnir í Venesúela fögnuðu í gær mikilli þátttöku í táknrænni þjóðaratkvæðagreiðslu sem þeir höfðu boðað til. Um 7,2 milljónir íbúa landsins, af um 19 milljónum á kosningaaldri, greiddu atkvæði en spurt var hvort viðkomandi styddi þau áform Nicolás Maduros, forseta Venesúela, að endurskrifa stjórnarskrá landsins. Munu niðurstöðurnar hafa verið afgerandi á móti, en stuðningsmenn Maduros sniðgengu kosningarnar.

Hin mikla þátttaka í kosningunum vakti athygli, þar sem hún var skipulögð með mjög litlum fyrirvara. Voru „kjörstaðir“ til að mynda einungis um 2.000 talsins, en í venjulegum kosningum yrðu þeir um 14.000.

Maduro mun hins vegar vera harðákveðinn í að halda áformum sínum um stjórnlagaþingið til streitu, en 545 fulltrúar verða kosnir 30. júlí næstkomandi.

Þá var Vicente Fox, fyrrverandi forseta Mexíkó, bannað í gær að koma til landsins, en hann hefur lýst yfir stuðningi sínum við stjórnarandstöðuna.