Sigríður Ingibjörg Ólafsdóttir fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð 3. apríl 1935. Hún lést á líknardeild Landspítalans 5. júlí 2017.

Foreldrar hennar voru Ólafur Jónsson húsasmíðameistari, f. 12. maí 1892, d. 30. desember 1967, og Elínborg Katrín Sveinsdóttir, símstöðvarstjóri á Þingeyri, f. 12 október 1897, d. 11. maí 1955. Systkini Sigríðar eru Yngvi, f. 1922, d. 2005, Björgvin, f. 1924, d. 2017, Sveinn, f. 1924, Þórey Hrefna, f. 1925, Höskuldur, f. 1927, Jónas, f. 1928, d. 1928, Jónas, f. 1929, d. 2016, Sylvía, f. 1931, Ingibjörg, f. 1932, Ólöf, f. 1937, María, f. 1939, Guðrún, f. 1944, d. 1960. Hálfsystkini Sigríðar, börn Ólafs og fyrri eiginkonu hans, Þóreyjar Sturlaugsdóttur, eru Hrefna, f. 1915, d. 1918, Kjartan, f. 1918, d. 1991. Ennfremur Þórir, f. 1931, d. 1990.

Hinn 25. ágúst 1956 giftist Sigríður Júlíusi Kolbeins, f. 26. júlí 1936 í Vestmannaeyjum. Þau slitu samvistum árið 1977. Foreldrar Júlíusar voru Hildur Þorsteinsdóttir og Þorvaldur Kolbeins Eyjólfsson. Börn Sigríðar eru: 1) Ólafur J. Kolbeins, f. 1957. Maki Ósk Laufdal Þorsteinsdóttir, f. 1958. Sonur þeirra er Þorsteinn, f. 1984. 2) Sjöfn Sóley Kolbeins, f. 1961. Maki Sigurður Jensson, f. 1961. Börn þeirra eru Jenný Kristín, f. 1990, Sigurður Hafsteinn, f. 1992, Emil Þorvaldur, f. 1997. 3) Guðborg Hildur Kolbeins, f. 1962. Maki Tómas Ásgeir Sveinbjörnsson, f. 1961. Synir þeirra eru Tómas Júlíus, f. 1987, Ásgeir Ingi, f. 1990.

Sigríður fluttist eins ára gömul með fjölskyldu sinni til Þingeyrar við Dýrafjörð. Á sínum yngri árum starfaði Sigríður sem símamær á símstöðinni á Þingeyri og síðan hjá Landssímanum í Reykjavík. Eftir það flutti hún ásamt eiginmanni sínum til Akraness og bjó þar í 7 ár. Sigríður flutti til Reykjavíkur árið 1965 og bjó þar til dauðadags.

Útför Sigríðar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 18. júlí 2017, klukkan 11.

Kom, huggari, mig hugga þú,

kom, hönd, og bind um sárin,

kom, dögg, og svala sálu nú,

kom, sól, og þerra tárin,

kom, hjartans heilsulind,

kom, heilög fyrirmynd,

kom, ljós, og lýstu mér,

kom, líf, er ævin þver,

kom, eilífð, bak við árin.

(Valdimar Briem)

Þessi sálmur kom upp í huga minn þegar ég frétti af andláti Siggu, fyrrverandi svilkonu minnar. Sálmurinn segir mér svo mikið um það hve mikilvægt er fyrir okkur sem eftir erum að þakka fyrir lífið. Hún og Júlli bróðir Steina míns giftu sig 1955 og eignuðust þrjú yndisleg börn, Ólaf, Sjöfn og Guðborgu, sem ég hef alltaf fylgst vel með og hugsað hlýtt til.

Sigga hélt góðu sambandi við mig þó fjölskyldutengslin hafi rofnað og við heyrðumst á afmælisdögum hvor annarrar og alltaf var hlýtt á milli okkar. Við ræddum mikið um börnin okkar og hve ánægðar við vorum með hvernig þeim hefur vegnað í lífinu.

Sigga hefur undanfarið barist hetjulega í gegnum erfið veikindi. Á stundu sem þessari er mér þakklæti í huga, ég þakka samfylgdina og sendi Júlla, börnunum og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Rósa Þorláksdóttir.