Reykjavíkurborg hefur fest kaup á þremur teljurum sem mæla eiga fjölda hjólandi vegfarenda á stígum borgarinnar. Þeim verður komið fyrir við hjólabrúna við Geirsnef, í Fossvogi við Elliðaárdal og í Nauthólsvík sunnan Fossvogskirkjugarðs.

Reykjavíkurborg hefur fest kaup á þremur teljurum sem mæla eiga fjölda hjólandi vegfarenda á stígum borgarinnar. Þeim verður komið fyrir við hjólabrúna við Geirsnef, í Fossvogi við Elliðaárdal og í Nauthólsvík sunnan Fossvogskirkjugarðs. Teljararnir eru frá kanadíska fyrirtækinu Eco-counter en þeir eru um metri á hæð og einkar fyrirferðarlitlir.

Hingað til hefur aðeins einn slíkur teljari verið í borginni en sá er við hjólastíg fyrir framan Nordica á Suðurlandsbraut og er nokkurra ára gamall. Með nýju teljurunum er von á að betri mynd fáist af umfangi hjólreiða í borginni. Teljararnir eru kærkomin viðbót en síðustu ár hefur borgin staðið fyrir hausatalningu á hjólreiðastígum borgarinnar fjórum sinnum á ári. Helstu upplýsingar um hjólreiðaumferð í borginni fást hins vegar úr ferðavenjukönnun sem Reykjavík hefur látið vinna á nokkurra ára fresti síðustu ár. Þar kemur fram að hlutdeild hjólreiða í ferðum borgarbúa hefur aukist úr 0,4% árið 2002 í 5,5% árið 2014. Til stendur að gera aðra slíka könnun nú í haust.

Lítið um mælingar

Þótt hjólreiðar hafi aukist um allt land síðustu árin hefur tölfræði yfir hjólandi vegfarendur ekki legið á lausu. Vegagerðin sér um almennar umferðarmælingar og eru til að mynda þrír teljarar í borginni sem mæla bílaumferð og 16 aðrir á þjóðvegi 1. Auk þeirra hefur Vegagerðin umferðarlíkön sem gefa stofnuninni góða mynd af umferðarþunga innanbæjar sem utan. Hjá Vegagerðinni fengust hins vegar þær upplýsingar að ekki væri vel haldið utan um hjólreiðar hjá stofnuninni enda væri slíkt á borði sveitarfélaga, í það minnsta enn sem komið væri. alexander@mbl.is