Ég veit ekki hvað bilbugur er en hann var alla vega ekki að sjá á leikmönnum íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu fyrir leikinn við Frakka í kvöld.
Ég veit ekki hvað bilbugur er en hann var alla vega ekki að sjá á leikmönnum íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu fyrir leikinn við Frakka í kvöld. Við fjölmiðlamenn fengum að kíkja í góða heimsókn til þeirra á liðshótelið í Ermelo á sunnudaginn og hver einasti viðmælandi sem ég ræddi við virtist stútfullur af sjálfstrausti.

Ég finn hins vegar sjálfur ekki fyrir sérstakri bjartsýni fyrir kvöldið. Það væri ekkert óeðlilegt að tapa 3:0 fyrir þessu geggjaða liði Frakka. Upp í kollinn kemur á sama tíma einhver draumur og minning um það þegar boltinn skreið rétt yfir marklínuna á Laugardalsvelli fyrir tíu árum, eftir skalla Margrétar Láru Viðarsdóttur, og Ísland vann sinn eina sigur á Frakklandi til þessa. En það er draumur.

Ég á rosalega erfitt með að sjá önnur góð úrslit í spilunum en hugsanlega 0:0. Franska liðið fær varla á sig mark, fór til að mynda í gegnum alla undankeppni EM án þess og hefur ekki tapað leik síðan þjálfarinn Olivier Echouafni tók við liðinu síðasta haust.

Ástæðan fyrir því að liðið hefur ekki enn unnið til verðlauna á stórmóti er að það féll úr leik í vítaspyrnukeppni í 8-liða úrslitum bæði á síðasta EM og HM. Liðið minnir svolítið á karlalið Spánar áður en það vann svo loksins stórmót, og þá þrjú í röð.

Ég vona bara að fólk stilli væntingum í hóf í kvöld og að ekki fari mjög illa, því hvernig sem fer þá á Ísland möguleika á að komast upp úr sínum riðli. Það er ekki spurning. Tap gegn Frökkum má ekki draga alla niður í þunglyndi. Eftirvæntingin er samt mikil og ég hlakka til að sjá hvaða stemningu löndum mínum tekst að skapa í Tilburg.