Í haldi Thomas Møller Olsen sést hér í fylgd lögreglumanna er hann var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness fyrr á þessu ári.
Í haldi Thomas Møller Olsen sést hér í fylgd lögreglumanna er hann var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness fyrr á þessu ári. — Morgunblaðið/Ófeigur
Axel Helgi Ívarsson axel@mbl.is Sjö skipverjar á grænlenska togaranum Polar Nanoq mæta til skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Markar það upphaf á aðalmeðferð dómsmáls sem höfðað er á hendur Thomasi Møller Olsen.

Axel Helgi Ívarsson

axel@mbl.is

Sjö skipverjar á grænlenska togaranum Polar Nanoq mæta til skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Markar það upphaf á aðalmeðferð dómsmáls sem höfðað er á hendur Thomasi Møller Olsen. Er hann ákærður fyrir að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana í janúar á þessu ári. Ekki er gert ráð fyrir að Thomas verði viðstaddur þinghaldið í dag

Fastlega er búist við því að skipverjarnir sjö standi stutt við hér á landi og því lítur út fyrir að skýrslur verði teknar af þeim þrátt fyrir að erlendur réttarmeinafræðingur eigi enn eftir að skila skýrslu. Þýski réttarmeinafræðingurinn, Urs Oliver Wiesbrock, tók að sér að svara nokkrum spurningum er liggja fyrir og er hann dómkvaddur matsmaður málsins. Búist var við því í seinni hluta maímánaðar að svör við spurningunum lægju fyrir í lok júní, en það hefur hins vegar dregist nokkuð á langinn. Seinkunin gæti tafið aðalmeðferð málsins.

Ekki liggur ljóst fyrir hvort skipverjinn sem handtekinn var ásamt Thomasi í janúar en var síðar sleppt verður einn þeirra sem mæta til skýrslutöku í héraðsdómi.

Thomas Møller Olsen er ákærður samkvæmt 211. og 173. grein almennra hegningarlaga, þ.e. fyrir að hafa svipt Birnu Brjánsdóttur lífi að morgni 14. janúar síðastliðins og fyrir að hafa staðið í smygli á fíkniefnum. En rúmlega 23 kíló af kannabisefnum fundust í klefa hans við leit lögreglu í Polar Nanoq. Thomas segist saklaus af báðum ákærum.