[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Enska knattspyrnufélagið Leicester City hefur ekki gefist upp á að reyna að fá Gylfa Þór Sigurðsson til liðs við sig frá Swansea City.

*Enska knattspyrnufélagið Leicester City hefur ekki gefist upp á að reyna að fá Gylfa Þór Sigurðsson til liðs við sig frá Swansea City. Enska blaðið Daily Mail segir að Leicester sé reiðubúið að greiða Gylfa hærri laun en Everton er tilbúið að borga honum en í frétt blaðsins segir að Leicester muni greiða honum 125.000 pund í vikulaun en sú upphæð jafngildir um 17 milljónum íslenskra króna. Enskir fjölmiðlar telja miklu meiri líkur á að Gylfi fari til Everton en hann ákvað að fara ekki með Swansea-liðinu í æfingaferð félagsins til Bandaríkjanna fyrir helgina þar sem hann treysti sér ekki með vegna óvissu um framtíð sína.

*Úrúgvæski sóknarmaðurinn Diego Forlán gæti orðið samherji markvarðarins Ingvars Jónssonar hjá norska úrvalsdeildarliðinu Sandefjord. Norskir fjölmiðlar greina frá því að Sandefjord vinni í því að reyna að fá Forlán til að leika með liðinu fram til haustsins en liðið er í 11. sæti í norsku deildinni. Forlán, sem var valinn besti leikmaðurinn á HM 2010 og er orðinn 38 ára, lék síðast með Mumbai City á Indlandi.

*Í fyrsta skipti á ferlinum er bandaríski kylfingurinn Tiger Woods ekki á meðal 1000 efstu á heimslistanum í golfi. Woods er í 1.005. sæti á nýjasta heimslistanum sem gefinn var út í gær. Ástæðan er auðvitað sú að Woods hefur lítið getað tekið þátt í mótum undanfarin ár vegna þrálátra bakmeiðsla en hann sat á toppi heimslistans í 683 vikur í röð. Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er í efsta sæti á heimlistanum, Japaninn Hideki Matsuyama er í öðru sæti, Bandaríkjamaðurinn Jordan Spieth er þriðji, Norður-Írinn Rory McIlroy er fjórði og Spánverjinn Sergio Garcia er í fimmta sætinu.

*Spænski framherjinn Miguel Michu , fyrrverandi samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá velska knattspyrnuliðinu Swansea City, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 31 árs gamall. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun Michu eru þrálát meiðsli sem hann hefur glímt við en hann lék með spænska liðinu Real Oviedo á síðustu leiktíð.

*Handknattleiksmaðurinn efnilegi Elvar Örn Jónsson hefur gert nýjan samning við Selfyssinga um að spila áfram með þeim næstu tvö árin. Elvar var í lykilhlutverki hjá Selfyssingum í Olís-deild karla á síðasta tímabili en þeir voru þá nýliðar í deildinni og höfnuðu í fimmta sæti. Elvar var markahæsti leikmaður liðsins með 166 mörk í 27 leikjum og var í hópi markahæstu leikmanna deildarinnar.