Hjúkrunarfræðingar Starfsþróunarmisseri miðar að því að koma hjúkrunarfræðingum, sem ekki hafa unnið við hjúkrun um skeið, aftur til starfa.
Hjúkrunarfræðingar Starfsþróunarmisseri miðar að því að koma hjúkrunarfræðingum, sem ekki hafa unnið við hjúkrun um skeið, aftur til starfa. — Morgunblaðið/Eggert
Arnar Þór Ingólfsson athi@mbl.is Fimm hjúkrunarfræðingar sóttu um svokallað starfsþróunarmisseri á Landspítalanum, sem auglýst var í maí.

Arnar Þór Ingólfsson

athi@mbl.is

Fimm hjúkrunarfræðingar sóttu um svokallað starfsþróunarmisseri á Landspítalanum, sem auglýst var í maí. Starfsþróunarmisseri er endur- og símenntunarúrræði fyrir menntaða hjúkrunarfræðinga sem hafa ekki unnið við hjúkrun í lengri tíma, en hafa áhuga á því að snúa aftur til starfa á Landspítalanum.

Hrund Scheving Thorsteinsson, deildarstjóri á menntadeild Landspítalans, segist fagna hverjum nýjum hjúkrunarfræðingi, þar sem þörf spítalans sé brýn. „Hver hjúkrunarfræðingur er dýrmætur, það er algjörlega ljóst. Ég verð gríðarlega ánægð ef ég fæ fimm hjúkrunarfræðinga, sem ekki hefðu komið til okkar ella. Það er bara algjörlega frábært,“ segir Hrund í samtali við Morgunblaðið.

„Í starfi hjúkrunarfræðinga verður mikil endurnýjun á þekkingu á hverjum tíma og svo er spítalinn mjög sérhæfður, þannig að þeir sem ekki hafa starfað þar lengi þurfa upprifjun. Þetta eru fullfærir hjúkrunarfræðingar, en til þess að geta starfað inni á sérhæfðum deildum spítalans þar sem við erum með veikasta fólkið verða þeir að hafa yfir nýjustu þekkingunni að ráða. Þetta miðar að því að koma einstaklingum hratt inn í starfið, auka öryggi þeirra í starfi og tryggja öryggi sjúklinga,“ segir Hrund.