Teygir Dagný Brynjarsdóttir er tilbúin í slaginn í Tilburg í kvöld og mætir þar m.a. samherja úr Portland Thorns.
Teygir Dagný Brynjarsdóttir er tilbúin í slaginn í Tilburg í kvöld og mætir þar m.a. samherja úr Portland Thorns. — Morgunblaðið/Golli
Í Hollandi Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Í aðdraganda Evrópumótsins í Hollandi hefur hvað mest óvissa varðandi íslenska liðið snúist um Dagnýju Brynjarsdóttur í ljósi meiðsla hennar.

Í Hollandi

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Í aðdraganda Evrópumótsins í Hollandi hefur hvað mest óvissa varðandi íslenska liðið snúist um Dagnýju Brynjarsdóttur í ljósi meiðsla hennar. Hún hefur ekki verið í byrjunarliðinu í landsleik á þessu ári en er algjör lykilmaður og hefur lagt allt í sölurnar til að vera upp á sitt besta þegar flautað verður til leiks í Tilburg í kvöld.

„Mér líður bara ótrúlega vel. Ég held að ég sé upp á mitt besta. Það hefur alla vega gengið ógeðslega vel á æfingum, ég er búin að ná „fitnessinu“ upp, komin með hraðann og styrkinn. Síðasta heila mánuðinn hef ég ekki fundið fyrir neinu og finnst ég vera 120%. Ef Freyr og þjálfarateymið vilja að ég byrji gegn Frökkum þá er ég tilbúin,“ sagði Dagný við Morgunblaðið.

Dagný leikur með einu af betri félagsliðum heims, Portland Thorns, og varð deildarmeistari með liðinu í Bandaríkjunum í fyrra. Hún náði að leika fjóra leiki með liðinu í aðdraganda EM, eftir að hafa verið frá keppni vegna flókinna bakmeiðsla. Hjá Portland leikur hún með einum af lykilmönnum hins gríðarsterka liðs Frakka; Amandine Henry, sem meðal annars vann Meistaradeild Evrópu þrívegis, var kjörin næstbesti leikmaðurinn á HM 2015, varð önnur í kjörinu á knattspyrnukonu Evrópu sama ár, og varð níu sinnum franskur meistari áður en hún samdi við bandaríska félagið.

Eigum eftir að loka á hana

„Hún er auðvitað góður leikmaður og á fullt af verðlaunum, hefur verið á topp 10 í heiminum, topp 3 í Evrópu og næstbest á HM 2015, en ég myndi ekkert segja að hún sé betri en allir leikmenn í íslenska landsliðinu. Hún er djúpur miðjumaður, góð í að dreifa boltanum, með hrikalega góðar, langar sendingar og það væri gott ef við næðum að stoppa hana í að færa spilið á milli hægri og vinstri. Ég held að við eigum alveg eftir að ná að loka á hana,“ sagði Dagný, sem hefur sparað stóru orðin í samskiptum við Henry í aðdraganda leiksins:

„Við höfum ekki rætt mikið um þennan leik, en það hafa alveg verið einhver skot á milli. Mér finnst gaman að svara fyrir mig og vera með derring, en ég hef sparað stóru orðin fyrir fótboltavöllinn og mun svara í verki þar. Hún má segja það sem hún vill,“ sagði Dagný.

Franska liðið er stútfullt af frábærum leikmönnum og er víða spáð sigri á EM í ár. Leikmennirnir léku margir í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor og Frakkland hefur enn ekki tapað leik undir stjórn þjálfarans Olivier Echouafni, sem tók við síðasta haust. Liðið fær sjaldan á sig mark en Dagný, sem skoraði sjö mörk í átta leikjum fyrir Ísland í undankeppninni, segir að gott gengi Frakka geti stigið þeim til höfuðs:

Ekki skoðað okkur eins vel

„Ég held sjálf, án þess að vita það, að Frakkarnir séu ekki búnir að skoða okkur eins vel og við höfum skoðað þær. Ég held að fá landslið hafi verið með eins færa einstaklinga og undirbúið sig eins vel og við,“ sagði Dagný.

„Ég held að þær muni vanmeta litla Ísland, og ég byggi það líka á athugasemdum frá Amandine. Ég held að við eigum eftir að koma þeim á óvart, með pressunni okkar og hvernig við elskum að vera í baráttu. Frakkarnir elska frekar að fá tíma og að geta dólað sér með boltann. Þær munu verða hissa. Þær reikna ekki með okkur eins góðum og við erum. Þetta er eins og með karlana á EM í Frakklandi í fyrra. Enginn hélt að þeir myndu vinna England og komast í 8-liða úrslit. Ég held að þetta verði það sama í ár,“ sagði Dagný.

Komin með fleiri einstaklinga á hærra stig en áður

Dagný, sem er uppalin hjá KFR, er mætt á sitt annað stórmót en hún á afar góðar minningar frá EM í Svíþjóð fyrir fjórum árum þar sem hún kom Íslandi áfram í 8-liða úrslit með sigurmarki gegn Hollandi. Hún segir íslenska liðið talsvert breytt síðan þá, þó að margir leikmenn hafi tekið þátt í því móti:

„Ég held að við séum komin með fleiri einstaklinga á hærra stig en fyrir fjórum árum. Við búum að reynslunni frá síðustu mótum. Þjálfarateymið er orðið stærra og öll umgjörðin mikið meiri; styrktarþjálfari, sjúkraþjálfarar og fleira fólk sem hjálpar okkur. Það hefur mikið að segja. Ég held líka að leikplanið sé orðið betra. Við erum með Davíð Snorra [Jónasson] sem fór á níu leiki hjá Frökkum og gat sagt okkur allt um þær. Ég veit ekki hvernig þetta var fyrir fjórum árum en ég efast um að það hafi verið svona. Það er allt orðið 60% betra einhvern veginn, allt gert til að við getum spilað okkar besta leik og átt sem besta möguleika á þremur stigum í hverjum leik,“ sagði Dagný.

Dagný Brynjarsdóttir
» Er 25 ára gömul, frá Hellu, og á að baki 70 A-landsleiki. Hún hefur skorað í þeim 19 mörk.
» Hún er ein þriggja íslenskra landsliðskvenna sem skorað hafa á stórmóti, en Dagný gerði mark Íslands í 1:0-sigri á Hollandi á EM 2013 sem kom Íslandi í 8-liða úrslit.
» Leikur með Portland Thorns í Bandaríkjunum en hefur leikið með Selfossi og Val á Íslandi, eftir að hafa byrjað hjá KFR.
» Hún lék með Bayern München árið 2015 og varð þýskur meistari.