Snúðar Fjölnismaðurinn Ægir Jarl Jónasson virðist hafa betur gegn Gunnari Þorsteinssyni, fyrirliða Grindavíkur.
Snúðar Fjölnismaðurinn Ægir Jarl Jónasson virðist hafa betur gegn Gunnari Þorsteinssyni, fyrirliða Grindavíkur. — Morgunblaðið/Hanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Grafarvogi Kristófer Kristjánsson sport@mbl.is Fjölnir lyfti sér upp af botninum með frábærum 4:0 sigri gegn lánlausum Grindvíkingum á Extra-vellinum í 11. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í gær.

Í Grafarvogi

Kristófer Kristjánsson

sport@mbl.is Fjölnir lyfti sér upp af botninum með frábærum 4:0 sigri gegn lánlausum Grindvíkingum á Extra-vellinum í 11. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í gær. Sænski framherjinn Linus Olsson, sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir Fjölni, skoraði strax eftir tveggja mínútna leik og eftir það litu heimamenn aldrei til baka. Gunnar Már Guðmundsson skoraði glæsilegt mark með þrumuskoti af 25 metra færi áður en Þórir Guðjónsson setti tvö mörk í seinni hálfleik til að innsigla ótrúlegan sigur.

Fyrir sumarið var Grindavík spáð falli af flestum miðlum en Fjölnismenn þóttu líklegir til að sigla lygnan sjó um miðja deild. Staðan var þó allt önnur þegar liðin mættust í 11. umferðinni í gær; Fjölnismenn sátu á botninum með níu stig og aðeins átta mörk skoruð á meðan Grindvíkingar eygðu möguleikann á því að hneppa toppsætið af Val með sigri. Engan Fjölnismann mun þó hafa getað órað fyrir því hvernig leikurinn átti eftir að spilast. Heimamenn spiluðu með áræði og glæsileika sem lið í fallsætum sýna sjaldan. Nýi maðurinn, Linus Olsson, lagði línuna strax eftir tvær mínútur og Fjölnismenn gengu svo á lagið og hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk. Í stöðunni 2:0 í hálfleik breytti Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, leikkerfinu og tók meiri áhættu til að freista þess að koma liðinu aftur inn í leikinn. Sú tilraun snerist hinsvegar í höndunum á honum þegar Þórir Guðjónsson skoraði strax á þriðju mínútu síðari hálfleiks og eftir það virtust gestirnir einfaldlega hengja haus.

Auðvitað hefðu flestir Grindvíkingar tekið því fegins hendi ef þeim hefði verið boðið 2. sæti deildarinnar eftir 11. umferðir en í gær var tækifæri til að komast á toppinn og sú prófraun reyndist einfaldlega of erfið. Nú reynir á leikmenn Grindavíkur og gaman verður að sjá hvernig þeir koma til baka eftir þennan skell.

Fjölnismenn hafa hinsvegar öðlast nýtt líf eftir þennan sigur og hafa þeir greinilega nýtt vel þessa 23 daga sem liðu frá síðasta keppnisleik. Það eru aftur á móti bara sex dagar í næsta leik og Fjölnir þarf að halda áfram að safna stigum svo að þessi glæsti sigur hafi ekki verið til einskis.