Þorskur Maðurinn var ákærður fyrir að draga sér aflahlutdeild í þorski.
Þorskur Maðurinn var ákærður fyrir að draga sér aflahlutdeild í þorski. — Morgunblaðið/Eggert
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Fiskistofa þróar nú rafrænt millifærslukerfi vegna yfirfærslu aflamarks milli óskyldra aðila. Sambærilegt kerfi fyrir aflaheimildir lítur ekki dagsins ljós í náinni framtíð, en ekki er útilokað að það verði síðar.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Fiskistofa þróar nú rafrænt millifærslukerfi vegna yfirfærslu aflamarks milli óskyldra aðila. Sambærilegt kerfi fyrir aflaheimildir lítur ekki dagsins ljós í náinni framtíð, en ekki er útilokað að það verði síðar.

Héraðsdómur Reykjaness þingfesti í síðustu viku mál gegn manni á fertugsaldri sem sakaður er um að hafa dregið sér krókaaflahlutdeild í þorski í fjórum tilvikum og fyrir að hafa leigt í þremur tilvikum án heimildar samtals sjö þúsund kílógrömm af krókaaflamarki í þorski og dregið sér endurgjald leigunnar. Maðurinn er m.a. sakaður um að hafa falsað undirskriftir til að fremja brotin, en Fiskistofa staðfesti umræddar yfirfærslur án athugasemda.

Einsdæmi hjá Fiskistofu

„Það hefur ekkert sambærilegt mál komið upp hjá okkur áður,“ segir Þorsteinn Hilmarsson, sviðsstjóri þjónustu- og upplýsingasviðs Fiskistofu. „Þegar menn falsa undirskriftir, þá getur verið erfitt að sannreyna það í öllum tilfellum,“ segir hann og bendir á að eigendur aflamarks- og heimilda geti séð rauntímaupplýsingar um hreyfingar á vef Fiskistofu.

Þróa nýtt kerfi

Spurður hvort eftirlit stofnunarinnar hafi brugðist, segir hann að núgildandi verklag hafi gengið vel hingað til. Hins vegar sé stofnunin berskjölduð fyrir fölsunum sem þessum. Hann bendir einnig á að aflamarksfærslur skipti þúsundum á ári.

Þorsteinn segir að það vilji þó til að unnið sé að endurbótum á millifærslukerfi fyrir aflamark þannig að það verði með rafrænu auðkenni.

„Til að geta millifært þurfa menn þá að hafa prókúru skráða hjá fyrirtækjaskrá. Prókúruhafi getur líka veitt starfsmanni umboð í kerfinu,“ segir hann.

Hlutdeildarfærslur eru nokkur hundruð á ári og flóknara að þróa rafrænt kerfi fyrir þær, að sögn Þorsteins. Hann segir Fiskistofu þurfa að kanna nánar hvernig slíkt kerfi yrði útfært.