Leikkonan Jodie Whittaker á frumsýningu kvikmyndarinnar Hello Carter árið 2013.
Leikkonan Jodie Whittaker á frumsýningu kvikmyndarinnar Hello Carter árið 2013. — AFP
Breska ríkisútvarpið, BBC, tilkynnti nýlega hvaða leikari tæki næst að sér titilhlutverkið í sjónvarpsþáttaröðinni sívinsælu Doctor Who og er óhætt að segja að valið hafi vakið athygli.

Breska ríkisútvarpið, BBC, tilkynnti nýlega hvaða leikari tæki næst að sér titilhlutverkið í sjónvarpsþáttaröðinni sívinsælu Doctor Who og er óhætt að segja að valið hafi vakið athygli. Á næstu jólum tekur Jodie Whitaker við af Peter Capaldi sem doktorinn og verður þar með fyrsta konan sem fer með hlutverkið. Doktorinn er geimvera sem skiptir reglulega um útlit og persónuleika og því hefur möguleikinn á að kona tæki að sér hlutverkið alltaf verið fyrir hendi en ekki orðið að veruleika fyrr en nú.

Margir aðdáendur þáttanna eru í skýjunum yfir því að þrettándi leikarinn sem leikur doktorinn í þáttunum sé kona og telja að persónan gæti orðið góð fyrirmynd fyrir ungar stúlkur í áhorfendahópnum. „Átta ára dóttir mín reisti hnefa og hrópaði „já!“ þegar hún heyrði fréttirnar,“ hefur BBC eftir aðdáanda. Aðrir eru ekki eins hrifnir: „Ég kann vel við Jodie, mér finnst hún frábær leikari en því miður er þetta bara tilraun til að höfða til rétttrúnaðarskrílsins. Hví ekki að skrifa ný hlutverk fyrir konur? Þetta er bara tilraun til að fylla einhvern kvóta!“ hefur BBC eftir öðrum aðdáanda.

Aðrir láta sér fátt finnast um gagnrýnina. J.K. Rowling, höfundur Harry Potter -bókanna, komst svo að orði í Twitter-færslu sinni: „Sægur af fólki sem hefur aldrei haft áhuga á Doctor Who hefur allt í einu þungar áhyggjur. Kannski ættum við að tilkynna að loftslagsbreytingar séu kona.“