Markaður Það eru vonbrigði fyrir Haga að samruna var hafnað.
Markaður Það eru vonbrigði fyrir Haga að samruna var hafnað. — Morgunblaðið/Ómar
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is „Þetta eru vonbrigði fyrir okkur,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna Haga og Lyfju.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

„Þetta eru vonbrigði fyrir okkur,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna Haga og Lyfju.

Í tilkynningu frá Högum segir að niðurstaðan sé vonbrigði og að félagið muni taka hana til sérstakrar skoðunar næstu daga. Þá er áréttað að Hagar höfðu ekki tekið við rekstri Lyfju og mun ákvörðunin því ekki hafa nein áhrif á áður birt reikningsskil félagsins.

„Við erum bara komin með niðurstöðuna, en höfum ekki enn fengið að sjá röksemdafærslu Samkeppniseftirlitsins. Ég á von á því að við fáum hana fljótlega en þangað til get ég lítið tjáð mig um málið,“ segir Finnur í samtali við Morgunblaðið og bendir á að hann geti ekki svarað því strax hvort málinu verði áfrýjað.

Kaupsamningur Haga um Lyfju var undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fyrirvörum vegna niðurstöðu áreiðanleikakönnunar var aflétt í apríl sl., en Samkeppniseftirlitið hefur nú með úrskurði hafnað samrunanum. Kaup Haga á Lyfju eru liður í að mæta aukinni samkeppni, en Finnur segir núverandi rekstur Haga og þjónustu Lyfju fara vel saman.

„Þessi vöruflokkur er seldur í okkar nágrannalöndum á svipuðum slóðum og okkar vara og því hentar þetta mjög vel saman,“ segir hann.

Hver sem endanleg niðurstaða verður segir Finnur Haga halda áfram að reyna að huga að sínum viðskiptavinum.

„Þetta var einn liður sem við töldum að myndi auka þjónustu við okkar viðskiptavini og því er þessi niðurstaða vonbrigði,“ segir hann.

Ekki náðist í Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins.