Skúffuskáld Skurðlæknirinn og skúffuskáldið Sveinn M. Sveinsson gaf nýlega út sína þriðju hljómplötu, Fegurðarþrá. Hún hefur að geyma sönglög í þjóðlegum stíl, líkt og fyrri plötur Sveins, og gefur hann sjálfur út.
Skúffuskáld Skurðlæknirinn og skúffuskáldið Sveinn M. Sveinsson gaf nýlega út sína þriðju hljómplötu, Fegurðarþrá. Hún hefur að geyma sönglög í þjóðlegum stíl, líkt og fyrri plötur Sveins, og gefur hann sjálfur út. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Skurðlæknirinn og skúffuskáldið Sveinn M. Sveinsson gaf nýlega út þriðju hljómplötu sína, Fegurðarþrá . Um er að ræða sönglög í þjóðlegum stíl líkt og á fyrri plötum Sveins.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Skurðlæknirinn og skúffuskáldið Sveinn M. Sveinsson gaf nýlega út þriðju hljómplötu sína, Fegurðarþrá . Um er að ræða sönglög í þjóðlegum stíl líkt og á fyrri plötum Sveins.

„Lögin hafa verið kölluð sönglög eins og það heitir, ekki popp og rokk þótt stundum sé einhver rafgítar og örlítið rokkívaf í einstaka lagi,“ segir Sveinn. „Núna sérstaklega er mikil áhersla á sönginn. Þarna eru menntaðir óperusöngvarar eins og Kristinn, Bergþór og Gissur svo eitthvað sé nefnt. Svo eru þarna mikil áhrif frá soraja-jóga og heimspekilegar vangaveltur, ástar- og fegurðarþrá. Ég reyni að gera þessu skil án þess að vera með einhvern formála. Enginn nennir að lesa formála í svona albúmum.“

„Svoddan snillingur“

Kápa, umbúðir og textaskrá hljómplötunnar eru skreytt málverkum og ljósmyndum sem Sveinn hefur tekið víðs vegar um heim. „Ég er með algera ljósmyndadellu. Ég tek mikið af myndum og valdi úr þúsundum ljósmynda á plötuumbúðirnar. Ég reyni að hafa það þannig að það passi við lögin svo það sé einhver samsömun. Svo fannst mér líka gaman að skreyta með málverkum eftir föður minn, Svein Björnsson. Mér fannst þau smellpassa, þessi þrjú málverk sem eru þarna. Á forsíðunni er rosalega kröftugt málverk, alger fantasía frá A-Ö. Ég tel föður minn hafa verið mjög frumlegan málara. Hann gerði fantasíur. Ég skreytti forsíður fyrri platnanna líka með málverkum eftir hann og þótti það koma vel út.“

Tvö lög á plötunni eru samin eftir texta úr ljóðum Steins Steinars en hin eftir frumsömdum textum Sveins sjálfs. „Steinn er náttúrlega alltaf svoddan snillingur og maður getur ekki varist því að gera eitthvað þegar maður sér ljóðin hans.“

Sveinn segir ferlið við að semja lögin vera margbreytilegt en að textinn komi yfirleitt fyrst. „Svo semur maður lagið við það. Svo lengi sem maður er sjálfur með textann og lagið þá fær maður ýmsar hugmyndir og þá breytir maður bara aðeins textanum eftir hentugleika. Á þessari plötu fannst mér skemmtilegra að vera með aðeins lengri lög en á hinum fyrri. Flest lögin hafa bara verið um tvær og hálf mínúta sem mér fannst eiginlega ekki nóg til að segja góða sögu. Fyrsta lagið á þessari plötu er heilar átta mínútur sem er svolítið óvenjulegt. Flest eru lögin um og yfir fjórar mínútur. Ég spurði Sigga Flosa hvort hann væri til í að koma og spila lag sem væri átta mínútur og hann sagði: „Því ætla ég ekki að missa af!“ Ég hef alltaf gaman af blásturshljóðfærum. Ég spila sjálfur þverflautu og er í lúðrasveit.“

Söngurinn aðeins framar

Á þessari plötu hefur Sveinn sönginn og textann í forgrunni. „Við reyndum aðeins að dempa hljóðfæraleikinn betur þannig að söngurinn væri framar í mixinu. Gunnar Smári hefur góða tilfinningu fyrir því vegna þess að blásturshljóðfærin geta verið svo yfirgnæfandi. Mér finnst alveg glatað ef fólk heyrir ekki textann þar sem þetta eru sönglög. Hér er ögn sterkari áhersla á sönginn. Þetta er alveg jafnmikið unnið en söngurinn er aðeins framar og hitt aðeins aftar.“

Sveinn segir hljómplötuna að þessu sinni ögn glaðværari en hinar fyrri. „Mér finnst þetta örlítið breytt því þarna er ég frekar farinn að njóta heldur en að vanta. Hinar plöturnar voru gerðar stuttu eftir skilnað og í mörgum lögunum ber á öðrum tón. Í nokkrum lögum á þessari plötu, t.d. Leit að friði og Vetrarkvöldi, ber á kærleiksþránni en yfirleitt er hér meiri áhersla á fegurðarþrá og á að reyna að lifa í núinu og í gleði. Breytingin er því að mér líður öðruvísi og betur en fyrst eftir skilnaðinn. Þá var maður svolítið að skrifa sig frá því.“

Sveinn gefur sjálfur út plöturnar sínar og segist ekki vera í neinni gróðaleit með lagaskrifunum. „Þetta er þörf sem maður þarf að sinna og svo er náttúrlega bara svo svakalega gaman þegar eitthvað verður til. Það er ekkert varið í að eiga lög og texta niðri í skúffu og birta þau aldrei eins og sumt frábært tónlistarfólk lendir í. Ég veit til dæmis að Diddi fiðla, sem er nú algert séní og snillingur, hefur samið helling af fallegum lögum sem húka ofan í skúffu hjá honum. Ég þekki það og finnst það synd.“

Sveinn segist þegar vera farinn að vinna að fjórðu plötunni. Fegurðarþrá fæst í Smekkleysu, Tónum, Lucky Records og Bókakaffi á Selfossi.