Slagur Pálmi Rafn Pálmason í baráttu við Stjörnumennina Jósef Kristin Jósefsson og Brynjar Gauta Guðjónsson.
Slagur Pálmi Rafn Pálmason í baráttu við Stjörnumennina Jósef Kristin Jósefsson og Brynjar Gauta Guðjónsson. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Garðabæ Kristján Jónsson kris@mbl.is Stjarnan vann sinn fyrsta leik í Pepsí-deildinni síðan 28. maí þegar liðið lagði KR að velli 2:0 í Garðabænum í gærkvöldi.

Í Garðabæ

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Stjarnan vann sinn fyrsta leik í Pepsí-deildinni síðan 28. maí þegar liðið lagði KR að velli 2:0 í Garðabænum í gærkvöldi. Þrátt fyrir kaflaskipta fyrri umferð eiga Garðbæingar enn möguleika á því að blanda sér í baráttuna um titilinn fyrir alvöru. Liðið er í 3. sæti með 18 stig, sex stigum á eftir toppliði Vals, og fór upp um tvö sæti með sigrinum. KR er hins vegar í 10. sæti með 11 stig og gæti allteins þurft að berjast fyrir sæti sínu í deildinni þegar líður á sumarið þótt auðvitað sé of snemmt að spá um slíkt. Leikirnir í deildinni eru jú allt annað en fyrirsjáanlegir þetta sumarið.

„Ég held að þetta segi allt sem segja þarf um deildina. Allir eru að taka stig af öllum. Miðað við hvernig fyrri umferðin hefur spilast þá er allt opið. Enn er heil umferð eftir, ellefu leikir, og það getur ýmislegt gerst. Ef við höldum áfram að spila svona, og náum jafnvægi í okkar leik, þá hef ég fulla trú á því að við getum barist um titilinn,“ sagði Guðjón Baldvinsson, miðherji Stjörnunnar, við Morgunblaðið. Hann átti fínan leik gegn sínu gamla félagi, var afar vinnusamur og lagði upp fyrra markið.

Leikmenn KR vilja sjálfsagt ekki skýla sér á bak við þátttökuna í Evrópukeppni þegar leikir í deildinni tapast en mér fannst engu að síður KR-ingar vera kraftlitlir í gær. Sérstaklega hvað sóknirnar varðar. Þegar upp var staðið áttu þeir enga skottilraun sem náði á mark Stjörnunnar. Annaðhvort hittu tilraunirnar ekki markið eða varnarmenn Stjörnunnar komust fyrir. KR-liðið varðist þó ágætlega og fyrri hálfleikurinn var mjög jafn þótt Stjarnan væri 1:0 yfir að honum loknum.

Liðunum gekk ekki vel í fyrri hálfleik að opna varnir andstæðinganna. Í ljósi þess að KR spilaði síðasta fimmtudag gegn öflugu liði í rúmlega 30 stiga hita í Ísrael þá hefðu getað falist sóknarfæri í því fyrir Garðbæinga að pressa KR-inga. Stjörnumenn fóru varlega í fyrri hálfleik en voru ferskari og sterkari í síðari hálfleik. Þá sótti liðið meira og uppskar mark á 81. mínútu sem gerði útslagið.

„Ég vil ekki skýla mér á bak við erfiðan leik á fimmtudag og ferðalag á föstudag en verð að viðurkenna að ég var pínu þreyttur. Það á þó ekki að skipta máli. Mér fannst vera meiri doði yfir okkur heldur en þreyta. Ég veit ekki hvers vegna en við vorum ekki góðir í dag,“ sagði KR-ingurinn Skúli Jón Friðgeirsson.