[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is Landsnet fyrirhugar að reisa háspennulínu, svokallaða Sandskeiðslínu 1, en um er að ræða 200/400 kV háspennulínu ásamt tengivirki á Sandskeiði.

Sviðsljós Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

Landsnet fyrirhugar að reisa háspennulínu, svokallaða Sandskeiðslínu 1, en um er að ræða 200/400 kV háspennulínu ásamt tengivirki á Sandskeiði. Sandskeiðslína 1 mun liggja frá tengivirkinu í gegnum land Mosfellsbæjar, Kópavogs og Garðabæjar að Hafnarfirði og er forsenda þess að hægt sé að fara í niðurrif á Hamraneslínum 1 og 2 sem liggja nálægt byggð, en talið er að hætta og óþægindi skapist af þeim fyrir íbúa, m.a. í Vallarhverfi í Hafnarfirði. Fyrirsjáanlegt hefur verið um nokkurn tíma að styrkja þarf flutningskerfið við höfuðborgarsvæðið vegna breyttrar flutningsþarfar og fara áform Landsnets saman við áform sveitarfélaganna á svæðinu um byggðaþróun og uppbyggingu innan viðkomandi sveitarfélaga.

Eignarréttur, vatnsvernd o.fl.

Að mörgu er að hyggja þegar svona stór opinber framkvæmd á sér stað. Matsskýrsla framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum skulu liggja til grundvallar, en þau hafa komið til skoðunar hjá dómstólum. Hæstiréttur Íslands ógilti ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur þess efnis að veita framkvæmdaleyfi á Suðurnesjalínu 2 þann 16. desember 2014, m.a. þar sem ekki hefði verið tekið tillit til óska landeigenda um jarðstreng í stað loftlínu.

Einnig komu fram í bókun við síðasta fund skipulagsráðs Kópavogsbæjar um málið áhyggjur af því að línan skuli liggja um vatnsverndarsvæði, þrátt fyrir loforð umsækjanda framkvæmdaleyfis um sérstaka aðgát og viðbragðsáætlun, s.s. ef slys á borð við olíumengun á sér stað.

Umsóknum Landsnets til sveitarfélaganna um framkvæmdaleyfi fylgir m.a. áhættumat vegna vatnsverndar ásamt fleiri gögnum eins og lýsingu mannvirkja, kortum og viðaukum er varða möguleg umhverfisáhrif.

Þegar veitt framkvæmdaleyfi

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sinum þann 22. mars sl. að veita framkvæmdaleyfi til Landsnets hf. vegna Sandskeiðslínu 1 innan sveitarfélagsmarka Mosfellsbæjar. Matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir. Framkvæmdum vegna Sandskeiðslínu er lýst í framkvæmdaleyfisumsókn og fylgiskjölum, en þar kemur fram að á línuleiðinni verði farið um land Elliðakots og fékkst samþykki landeigenda fyrir því.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 21. júní sl. að veita framkvæmdaleyfi til Landsnets hf. vegna Sandskeiðslínu 1, en skipulags- og byggingaráð Hafnarfjarðar taldi að framkvæmdin væri í samræmi við aðalskipulag bæjarins 2013-2025 ásamt breytingum. Framkvæmdin mun fara fram á landi sem er að fullu í eigu bæjarfélagsins.

Óafgreidd framkvæmdaleyfi

Guðjón Erling Friðriksson, bæjarritari Garðabæjar, segir að niðurstaða um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir línuna liggi enn ekki fyrir, málinu hafi verið vísað til bæjarstjóra. „Við vonumst til að málið verði tekið til umfjöllunar fljótt eftir sumarleyfi,“segir Guðjón.

Birgir Hlynur Sigurðsson, skipulagsstjóri Kópavogsbæjar, tekur í svipaðan streng og býst við að framkvæmdaleyfið verði lagt fyrir skipulagsráð í lok mánaðarins eða um miðjan ágúst.