[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Torfason fæddist 18. júlí 1932 í Reykjavík. Hann gekk í Austurbæjarskólann og fór þaðan í MR og tók stúdentspróf þaðan 1952. Hann var í sveit fimm sumur í Bjarnanesi í Hornafirði hjá sr. Eiríki Helgasyni.

Gunnar Torfason fæddist 18. júlí 1932 í Reykjavík. Hann gekk í Austurbæjarskólann og fór þaðan í MR og tók stúdentspróf þaðan 1952. Hann var í sveit fimm sumur í Bjarnanesi í Hornafirði hjá sr. Eiríki Helgasyni.

„Ég var alltaf mjög námfús, bæði á bók og ekki síður til allra verka. Ég tel mig hafa mótað stefnuna á verkfræði á þessum sumrum, þótt ég hafi ekki þekkt orðið verkfræði. Ég hafði líka afbragðs kennara, sem hnoðaði mig til. Þar lærði ég að beita öllum almennum verkfærum og var mjög vinnufús. Öll menntaskólaárin vann ég í byggingavinnu á sumrum og drakk í mig erlendar bækur og tímarit um smíðar og arkitektúr. Ég tók mér frí frá námi árið eftir stúdentspróf til að safna mér fé til að komast í nám erlendis.“

Gunnar fór til München og innritaðist í arkitektúr, en skipti um fag og lauk byggingaverkfræði frá Technische Universität þar. Hann starfaði á verkfræðistofu í München í námslok og eftir nám.

Gunnar var framkvæmdastjóri Byggingafélagsins Brúar hf. 1961-1965, rak eigin verkfræðistofu 1965-1966, var framkvæmdastjóri Byggingaráætlunar ríkisins 1966-1968 og verkfræðingur hjá Fasteignamati Reykjavíkur 1969-1971. Hann stjórnaði og annaðist á þeim árum, ásamt öðrum verkfræðingum, heildarendurmat á öllum fasteignum Reykjavíkurborgar. Gunnar rak eigin verkfræðistofu í Reykjavík frá 1970 til 2008, fyrstu árin í félagi við aðra, en einkaeigandi frá 1977. Hann annaðist á þeim tíma meðal annars þolhönnun Húss verslunarinnar, Húss Landsvirkjunar við Háaleitisbraut, Hótel Selfoss og Fosshótels Lindar.

Gunnar var dómkvaddur matsmaður við marga héraðsdómstóla, víðs vegar um landið. Hann vann að matsstörfum fyrir tryggingafélög, aðallega vegna brunatjóna víðsvegar um landið; Fasteignamat ríkisins, Viðlagasjóð ríkisins, tryggingafélög og Ofanflóðasjóð ríkisins. Gunnar sat í þriggja manna nefnd, sem sá um og annaðist heildartjónamöt og niðurjöfnun bóta eftir eldgosið í Vestmannaeyjum 1973. Hann annaðist sambærileg möt og niðurjöfnun bóta eftir snjóflóð á Vestfjörðum, Austfjörðum og víðar á árunum 1995 til 2008.

Gunnar var verkefnisstjóri við ýmsar stórbyggingar í Reykjavík og víðar svo sem Verkfræðideild HÍ, stækkun Háskólabíós, hjúkrunarheimili, þjónustukjarna og þjónustuíbúðir Sunnuhlíðar í Kópavogi, elliheimili og barnaheimili í Vestmannaeyjum eftir gos, sem og hönnun flugstöðvar og flugturns, flughlaðs og nýhönnun vegar frá flugvelli; endurhæfingarstofnunarinnar Vík, Kjalarnesi og stækkun Sjúkrahússins Vogs fyrir SÁÁ. Hann var verkefnisstjóri við endurreisn Þjóðleikhússins; endurreisn,1. áfanga 1989-1991 og 2. áfanga 2006-2008, verkefnisstjóri starfsnefndar við undirbúning Sundabrautar frá 1996-2004 og verkefnisstjóri samráðsnefndar samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborg um úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar 2005-2007. Gunnar var stundakennari við Háskóla Íslands, verkfræðiskor 1973-1975 og fyrirlesari og kennari á námskeiðum í verkefnisstjórnun, matsstörfum og eftirliti við Háskóla Íslands og Endurmenntunarnefnd.

Félagsmál

Gunnar starfaði sem skáti og skátaforingi 1946-1976, sat í byggingarnefnd og stjórn handknattleiksdeildar Glímufélagsins Ármanns, í stjórn Körfuknattleiksráðs Reykjavíkur, í stjórn Handknattleikssamband Íslands, formaður Júdónefndar ÍSÍ (forveri Júdósambands Íslands), og í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur um árabil. Hann var á þeim tíma meðal annars mótsstjóri Evrópumóta og Íslandsmóta í golfi. Hannaði frárennsliskerfi golfvallar GR við Korpu og hafði umsjón með byggingu hans fyrir hönd borgarverkfræðings um tveggja til þriggja ára skeið á árunum 1994-1998. Annaðist lengdarmælingar fyrstu 10-12 golfvalla landsins fyrir hönd Golfsambands Íslands. Annaðist frumhönnun vökvunarkerfa fyrir golfvöll GR við Korpu og Nesvöllinn fyrir Golfklúbb Ness. Meðstofnandi og stjórnarmaður Körfuknattleiksfélags Reykjavíkur, meðstofnandi, stjórnarmaður og formaður Félags Íslendinga í München, 1954 til 1960, í stjórn Félags ráðgjafarverkfræðinga, stjórnarmaður og formaður Steinsteypufélags Íslands, Matsmannafélags Íslands og Verkefnisstjórnunarfélags Íslands um áravís. Var ráðstefnustjóri Alþjóðaráðstefnu handknattleikssambands Evrópu í Reykjavík 1978 og fjölþjóðaráðstefnu verkefnastjórnunarfélaga Evrópu, NORDNET, í Reykjavík 1987.

Gunnar stundaði mikið íþróttir á yngri árum, svo sem handknattleik, körfuknattleik og frjálsar íþróttir. Hann sigraði í Drengjahlaupi Ármanns 1951, átti með öðrum Íslandsmet í 4x1500 m hlaupi unglinga. Hann hefur verið virkur kylfingur frá 1978.

Gunnar hefur verið sæmdur gullmerki Golfklúbbs Reykjavíkur, Handknattleikssambands Íslands og Glímufélagsins Ármanns, varð heiðursfélagi Verkefnastjórnunarfélags Íslands 1998 og hlaut heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands 2007.

Fjölskylda

Eiginkona Gunnars frá 15.10. 1954 er Svana Jörgensdóttir, f. 28.3.1934, húsfreyja og fv. landsliðskona í handknattleik og Norðurlandameistari utanhúss 1964, lék einnig handbolta í Þýskalandi. Foreldrar hennar: Jörgen Guðni Þorbergsson, f. 6.12. 1900, d. 16.9. 1986, tollvörður í Reykjavík, og k.h. Laufey Jónsdóttir, f. 18.6. 1902, d. 26.11. 1980.

Dætur Gunnars og Svönu eru 1) Laufey, f. 4.1. 1952, lífeindafræðingur í Reykjavík. Dóttir hennar er Nanna Dís, tækniteiknari og ljósmyndari i Brussel; 2) Anna Úrsúla, f. 11.6. 1957, íþróttafræðingur, sjúkranuddari og sjúkraþjálfari í Reykjavík. Dóttir hennar er Jóhanna, háskólanemi í Hamborg.

Systur Gunnars voru Guðrún Ásta Torfadóttir, f. 19.3. 1925, d. 16.5. 2004, húsmóðir og fyrrv. fulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Elín Torfadóttir, f. 22.9. 1927, d. 9.1. 2016, fóstra, forstöðukona og síðar framhaldsskólakennari í Reykjavík.

Foreldrar Gunnars voru Torfi Guðmundur Þórðarson, f. 6.11. 1901, d. 15.12. 1975, kaupmaður og stjórnarráðsfulltrúi í Reykjavík, og k.h. Anna Úrsúla Björnsdóttir, f. 10.1. 1902, d. 12.1. 1957, húsmóðir í Reykjavík.