Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson
Eftir Sigurð Jónsson: "Fiskeldisleyfum ætti að fylgja sú kvöð, að við vinnslu fisksins verði leitast við að fullnýta fiskinn hér á landi og skapa með því sem mest verðmæti."

Öruggasta leið til að hrista upp í dauflegri samkomu Íslendinga er að nefna lúpínu eða laxeldi. Allir virðast hafa skoðun á málunum og vera fúsir til að deila þeim með öðrum – jafnvel með töluverðum ákafa.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að lúpína sé falleg jurt sem sé frekar til prýði en óprýði í landinu og því ekki ástæða til að amast við nema alveg sérstakar ástæður krefjist þess. Náttúrunasismi á því ekki upp á borðið hjá mér fremur en önnur þjóðremba. Nóg um lúpínuna.

Laxeldi hefur óneitanlega lífgað við hálfdauðar byggðir á suðurhluta Vestfjarða og þar er nú púlsandi mannlíf með þeirri bjartsýni og krafti sem æskilegt er að prýði allar byggðir. En að greininni er hart sótt, jafnvel með tilstyrk öflugra lögspekinga auk náttúrufræðimanna, sjálfskipaðra eða skólagenginna. Eins og jafnan þegar deilt er um merkismál, þá hafa báðir aðilar eitthvað til síns máls og því er óskandi að málamiðlun takist sem þó skapi möguleika til áframhaldandi fiskeldis, en að teknu tilliti til sanngjarnra atriða í máli gagnrýnenda. Fyrir alla muni þarf að koma í veg fyrir offors og yfirgang sem ekki leiðir til vitrænnar niðurstöðu.

Fyrir leikmann eins og mig skiptir máli að þessi þróun verði ekki stöðvuð og mannlíf í landinu þannig gert rýrara en nú er. Fiskeldisleyfum ætti að fylgja sú kvöð, að við vinnslu fisksins verði leitast við að fullnýta fiskinn hér á landi og skapa með því sem mest verðmæti. Þetta hlýtur líka að vera draumur fiskeldismanna þó að nú sé fiskurinn fluttur úr landi slægður og þannig lítið unninn, sem skilar að sjálfsögðu minni verðmætum en fullvinnsla myndi gera. Fiskur sem er fluttur slægður til Danmerkur, flakaður þar, unninn í neytenda- og/eða veitingahúsaumbúðir og síðan flogið með hann til Bandaríkjanna skilur eftir sig mörg kolefnisspor og of lítil verðmæti á Íslandi.

Við lokun HB Granda á bolfiskvinnslu á Akranesi og uppsögnum þeirra mörgu sem við hana störfuðu datt mér í hug að upplagt væri fyrir Vestfirðinga að flytja slægða eldislaxinn ekki lengra en til Akraness, láta fullvinna hann þar og síðan fljúga með hann frá Keflavík vestur til Bandaríkjanna. Með þessu væru verðmætin aukin um leið og aðstaða og fagþekking fiskvinnslufólks væri notuð, en líka væri kolefnissporum fækkað. Eflaust þyrfti að lagfæra vélakost eitthvað til að henta slíkri vinnslu, en það hlýtur að vera innan viðráðanlegra kostnaðarmarka. Laun og annar vinnslukostnaður ættu ekki að vera hærri hér en í Danmörku svo ekki ætti málið að stranda á þeim kostnaðarlið. Fiskmagnið ætti líka að vera það mikið að flugaðilar sæktust eftir að flytja það vestur um haf. Að sjálfsögðu gætu aðrir staðir þar sem mannafli og tæki eru til staðar líka komið til skoðunar.

Þetta væri í samræmi við áðurnefndar kvaðir sem ég tel að fylgja ættu eldisleyfum og útlendir eigendur fyrirtækjanna þyrftu að beygja sig undir hvað sem líður óskum um atvinnusköpun erlendis eða tekjutöku þar fremur en á Íslandi.

Ég óska fiskeldi á Íslandi alls góðs og vonandi eflist það í sátt við umhverfi sitt á komandi árum. En við skulum endilega ætlast til þess að mest af verðmætasköpuninni í fiskeldi verði á Íslandi.

Höfundur er framkvæmdastjóri. sjonsson13@gmail.com

Höf.: Sigurð Jónsson