Brottrekstur Þóroddur Hjaltalín dómari bendir á Pólverjann Patryk Stefanski og síðan fór rauða spjaldið á loft.
Brottrekstur Þóroddur Hjaltalín dómari bendir á Pólverjann Patryk Stefanski og síðan fór rauða spjaldið á loft. — Ljósmynd/Alfons Finnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Ólafsvík Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Víkingur frá Ólafsvík vann gríðarlega mikilvægan 1:0 sigur á Skagamönnum á heimavelli sínum í 11. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í gær.

Í Ólafsvík

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is Víkingur frá Ólafsvík vann gríðarlega mikilvægan 1:0 sigur á Skagamönnum á heimavelli sínum í 11. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í gær.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði sigurmarkið mikilvæga á 16. mínútu leiksins og sá til þess að Víkingur fór úr tíunda sæti í það sjöunda. Skagamenn eru hins vegar einir á botninum eftir leikinn, með aðeins tvo deildarsigra í sumar.

Eins og svo oft áður var spilamennska Skagamanna ekki svo galin. Patryk Stefanski fékk tvö gul spjöld og þar með rautt undir lok fyrri hálfleiks og voru gestirnir því manni færri allan seinni hálfleikinn.

Þrátt fyrir það voru þeir mun meira með boltann og náðu að pressa ágætlega á heimamenn sem lágu vel til baka og reyndu að verja stöðuna. Það vantaði hins vegar að skapa sér opið færi til að refsa Víkingum.

Víkingur hefur nú unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni og er Ejub Purisevic enn og aftur að sýna hversu fær þjálfari hann er. Víkingur var með sama byrjunarlið og gegn FH í síðasta leik og það virðist vera kominn ákveðinn stöðugleiki í liðið. Ejub hefði eflaust verið til í að hans menn hefðu nýtt liðsmuninn betur í gær, en stigin þrjú eru komin í hús.

Sjálfum sér verstir

Skagamenn eru oft sjálfum sér verstir og það sýndi sig í gær. Þeir fá mark á sig úr föstu leikatriði og Patryk Stefanski ætti að biðja liðsfélaga sína afsökunar. Hann var aðeins að leika sinn fimmta leik í deildinni í gær eftir að hafa misst sæti sitt í liðinu um tíma. Hann var ágætur gegn Víkingi R. í síðustu umferð, en hann gerði liðsfélögum sínum stóran grikk í gær og það í mikilvægasta leik sumarsins til þessa. ÍA hefði getað komist upp úr fallsæti með sigri, en þess í stað er liðið á botninum.

Það er ljóst að Skagamenn hafa burði til að koma sér úr fallsæti og vera áfram í deild þeirra bestu. Þeir verða hins vegar að hætta að fá á sig klaufaleg mörk og fækka einstaklingsmistökum.