Nýtt hlutverk St. Jósefsspítali í Hafnarfirði fær brátt nýtt hlutverk.
Nýtt hlutverk St. Jósefsspítali í Hafnarfirði fær brátt nýtt hlutverk. — Morgunblaðið/Ófeigur
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir að bæjarráð Hafnarfjarðar hafi falið Haraldi L. Haraldssyni, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, að ganga til samninga við Landspítalann.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir að bæjarráð Hafnarfjarðar hafi falið Haraldi L. Haraldssyni, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, að ganga til samninga við Landspítalann.

„Það var mat starfshópsins um framtíðarhlutverk St. Jósefsspítala, að ekkert væri því til fyrirstöðu að BUGL (Barna- og unglingageðdeld Landspítalans) fengi að leigja stóran hluta hússins í takmarkaðan tíma,“ sagði Rósa í samtali við Morgunblaðið í gær.

Rætt er um að BUGL fái aðstöðu í um tveimur þriðju hlutum hússins, en ekki liggur fyrir hvernig Hafnarfjarðarbær mun nýta þann hluta hússins sem BUGL leigir ekki. „Bæjarráð fól bæjarstjóra á fundi sínum á fimmtudag að fara í viðræður við Landspítalann um leigu á þessu húsnæði. Ég á því von á að af þessu geti orðið og það er í raun ágætt fyrir Hafnarfjörð að fá strax inn einhverjar tekjur fyrir þessa fjárfestingu,“ sagði Rósa.

Rósa segir að enn liggi ekkert fyrir um það hversu há leigan verður. Viðræður séu rétt að hefjast. Rætt sé um að BUGL leigi húsnæðið í eitt til eitt og hálft ár.

„BUGL vill hefja starfsemi í húsnæðinu sem allra fyrst, innan örfárra mánaða. Fyrst þarf að ráðast í lágmarksviðhald á húsnæðinu, setja nýtt gler þar sem rúður eru brotnar og ugglaust þarf að ráðast í einhverja málningarvinnu, en ég held að það þurfi ekki að ráðast í neitt stórkostlegt viðhald. Þeir treysta sér til þess að fara í húsið í því ástandi sem það er, að loknu lágmarksviðhaldi,“ sagði Rósa ennfremur.