Víðidalstungukirkja Jörðin hélst í eigu Vídalínsættar þar til skömmu fyrir 1900.
Víðidalstungukirkja Jörðin hélst í eigu Vídalínsættar þar til skömmu fyrir 1900. — Morgunblaðið/Einar Falur
Páll Vídalín lögmaður fæddist árið 1667 í Víðidalstungu í Víðidal, V-Hún. Foreldrar hans voru Jón Þorláksson, d. 1695, lögréttumaður í Víðidalstungu, en hann var sonarsonarsonur Guðbrands Þorlákssonar biskups og k.h.

Páll Vídalín lögmaður fæddist árið 1667 í Víðidalstungu í Víðidal, V-Hún. Foreldrar hans voru Jón Þorláksson, d. 1695, lögréttumaður í Víðidalstungu, en hann var sonarsonarsonur Guðbrands Þorlákssonar biskups og k.h., Hildar Arngrímsdóttur lærða Jónssonar, f. 1643, d. 12.10. 1725.

Páll lærði við Kaupmannahafnarháskóla í þrjú ár, tók próf í guðfræði 1688 og kom síðan aftur til Íslands. Hann var skólameistari 1690-1697, vorið eftir varð hann sýslumaður í Dalasýslu og sama ár varalögmaður sunnan og austan. Lögmaður varð hann svo 1706.

Árið 1702 var ákveðið að Páll, og Árni Magnússon, skólabróðir hans frá Kaupmannahöfn, ættu að taka saman jarðabók með nákvæmum upplýsingum um hverja einustu jörð á landinu og vann Páll meginhluta þess verks. Ennfremur áttu þeir að sjá til þess að tekið yrði allsherjarmanntal og er manntalið 1703 hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Þeir áttu m.a. líka að kanna framferði kaupmanna gegn landsmönnum, meta kærur almennings gegn embættismönnum og ríkismönnum og skrifa greinargerð um réttarfar.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var ekki fullgerð fyrr en 1713. Skýrslugerð og önnur vinna þeirra félaga varð ekki til þess að umbótum væri komið á en skilaði aftur á móti ómetanlegum heimildum um íslenskt þjóðfélag og landshætti á fyrsta áratug 18. aldar.

Páll var mjög fróður um bæði lögfræði og fornfræði og skrifaði meðal annars Skýringar yfir fornyrði Jónsbókar og fleiri verk. Páll var eitt af helstu skáldum sinnar tíðar og er þekktur fyrir lausavísur sínar.

Kona Páls var Þorbjörg Magnúsdóttir, f. 20.2. 1667, d. 19.5. 1737 (drukknaði), dóttir Magnúsar digra Jónssonar í Ögri og k.h, Ástríðar Jónsdóttur. Á meðal barna þeirra voru Hólmfríður, kona Bjarna Halldórssonar sýslumanns á Þingeyrum, og Jón Vídalín Pálsson sýslumaður.

Páll bjó mestalla sína tíð í Víðidalstungu. Hann lést á Alþingi 18.7. 1727.