Macchu Pichu Hólmfríður stödd í Perú núna í vor.
Macchu Pichu Hólmfríður stödd í Perú núna í vor.
Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands, á 60 ára afmæli í dag. Hún var stödd á Skriðuklaustri á leið á Kárahnjúka þegar blaðamaður náði tali af henni í gær.

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands, á 60 ára afmæli í dag. Hún var stödd á Skriðuklaustri á leið á Kárahnjúka þegar blaðamaður náði tali af henni í gær. „Ég er með erlendan gest og er að fara að sýna honum þessar framkvæmdir og svo hef ég sjálf aldrei farið að Kárahnjúkum. Annars held ég til í Seyðisfirði þessar vikurnar þar sem ég er með bróður mínum að gera upp hús, en í því bjuggu amma mín og afi og faðir minn þegar hann var drengur. Þar er ég með vírbursta og grunnmálningu og er að henda gömlu timbri og dytta að.“ Bærinn er út með Seyðisfirði að sunnanverðu og heitir Hraun. „Þar var gert út þar sem heitir Eyrar og þar voru þónokkur hús. Þetta er að mestu í eyði en nú er búið að laga tvö hús þarna og kannski fylgja einhver fleiri í kjölfarið.“

Hólmfríður ætlar að halda upp á afmælið á gamla spítalanum á Seyðisfirði þar sem nú er farfuglaheimili. „Þar fæddist ég klukkan hálftíu að morgni og þangað munu systkini mín koma og við verðum með heimabakað brauð og sultu úr héraðinu og munum skála fyrir móður minni að hafa staðist þessa þrekraun að hafa komið mér, frumburðinum, í heiminn.“ Sonur Hólmfríðar er Garðar Helgi, en hann var að klára meistarapróf í lögfræði.

Hólmfríður er að skrifa bók um Pablo Neruda sem var eitt helsta skáld Sílemanna og svo hefur hún verið að gefa út eigin þýðingar á íslenskum smásögum og ljóðum á spænsku í Argentínu. Hún er búin að gefa út eina bók, en höfundarnir í henni voru Svava Jakobsdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir og Þórarinn Eldjárn, og núna er hún að þýða Rúnar Helga Vignisson, Stefán Hörð Grímsson og Svövu Jakobsdóttur fyrir næstu bók. „Þetta eru pínulítil kver og tvímálaútgáfur. Það er voða gott í kvöldkyrrðinni að dunda sér við þetta.“