Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa boðið ráðamönnum í Norður-Kóreu til viðræðna um hernaðarmál þjóðanna, með því yfirlýsta markmiði að draga úr spennunni milli ríkjanna, sem mjög hefur aukist upp á síðkastið.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa boðið ráðamönnum í Norður-Kóreu til viðræðna um hernaðarmál þjóðanna, með því yfirlýsta markmiði að draga úr spennunni milli ríkjanna, sem mjög hefur aukist upp á síðkastið. Er þetta fyrsta tilboðið af þessu tagi sem sunnanmenn senda nágrönnum sínum í norðri síðan Moon Jae-in tók við forsetaembættinu í vor. Tilboðið kemur þó formlega ekki frá honum, heldur varnarmálaráðuneytinu.

Skrifstofa Alþjóða Rauða krossins í Seúl sendi einnig erindi til Pyongyang, þar sem beðið er um viðræður um sameiningu fjölskyldna, sem stíað var í sundur í Kóreustríðinu og náðu ekki saman áður en löndin voru formlega aðskilin. Slíkir endurfundir urðu síðast fyrir tveimur árum.

Fallist yfirvöld í Norður-Kóreu á viðræðurnar, þá verður það í fyrsta skipti frá 2015 sem ráðamenn ríkjanna ræðast við en ekki hefur enn borist svar frá ríkinu.

urdur@mbl.is