Þá er dagurinn runninn upp. Íslenska kvennalandsliðið leikur sinn fyrsta leik á EM í Hollandi í dag og að sjálfsögðu verður Víkverji límdur við skjáinn eins og aðrir landsmenn.

Þá er dagurinn runninn upp. Íslenska kvennalandsliðið leikur sinn fyrsta leik á EM í Hollandi í dag og að sjálfsögðu verður Víkverji límdur við skjáinn eins og aðrir landsmenn. Búist er við erfiðum leik, gegn Frökkum, en Víkverji er bjartsýnn að eðlisfari og býst við óvæntum úrslitum.

Kvennaknattspyrnan hér á landi er á stöðugri uppleið og á þar stærstan þátt framganga landsliðsins, sem hefur skipað sér í hóp bestu liða í Evrópu. Víkverji hugsaði með sér, þegar hann sat fyrir framan sjónvarpstækið sl. sunnudag í sinni þynnku og horfði á beina útsendingu frá Símamótinu í Kópavogi (hafði ekkert betra og merkilegra að gera), að þar væru á ferð landsliðskonur framtíðarinnar. Það var bráðskemmtilegt að horfa á stúlkurnar og á Síminn hrós skilið fyrir útsendinguna. Þarna mátti fylgjast með mismunandi aldursflokkum og gaman að sjá hve getan jókst eftir því sem leikmennirnir voru eldri.

Síðasti leikurinn í útsendingu Símans var frá úrslitum A-liða í 5. flokki, þar sem kominn var lýsandi og umgjörðin öll eins og um meistaraflokksleik væri að ræða. Lýsandinn var að vísu ekki alltaf með nöfn leikmanna á hreinu en Víkverji gerði svo sem ekki miklar kröfur um það. Leikgleðin var mikil, sem og harkan á köflum, og margir bráðefnilegir leikmenn innan raða Breiðabliks og Stjörnunnar.

Að þessari útsendingu lokinni var skipt yfir á RÚV þar sem sýndur var opnunarleikurinn á EM í Hollandi, á milli heimamanna og Norðmanna. Það reyndist hörkuleikur og þær norsku í raun heppnar að hafa aðeins fengið á sig eitt mark. Leikurinn gaf vonandi forsmekk að því sem koma skal á EM, fullur völlur og mikil stemning. Víkverji vonar að íslenska liðinu gangi vel, „stelpurnar okkar“ hafa fengið verðuga umfjöllun og athygli fyrir þetta mót og nú er það bara ÁFRAM ÍSLAND!