Ég eignaðist lítið kver um daginn, „Vísur Æra Tobba“. Þorbjörn hét hann og var uppi á 17. öld. Það var sumra sögn, að hann hefði á sínum yngri árum þótt efnilegur, skáldmæltur vel en æringi mikill.

Ég eignaðist lítið kver um daginn, „Vísur Æra Tobba“. Þorbjörn hét hann og var uppi á 17. öld. Það var sumra sögn, að hann hefði á sínum yngri árum þótt efnilegur, skáldmæltur vel en æringi mikill. Aðrir sögðu að hann gerði sér upp vitleysu og var ýmist kallaður Þorbjörn vitlausi eða Æri Tobbi. – Einhverju sinni var hann spurður til vegar yfir vötn og svaraði hann þá með vísu, þar sem vísað er til vaðs sem ófært var:

Veit ég víst hvar vaðið er

vil ég ekki segja þér.

Fram af eyraroddanum

undan svarta bakkanum.

Við þessa vísu orti Grímur Thomsen tilbrigði:

„Veit ég víst hvar vaðið er“,

vaðið yfir lífsins straum;

á bakkanum sætum sofnast þér

svefni fyrir utan draum.

„Veit ég víst hvar vaðið er

vil þó ekki segja þér.“

Enginn þetta þekkir vað,

þó munu allir ríða það.

„Fram af eyraroddanum,

undan svarta bakkanum“

feigðar út af oddanum

undan grafar bakkanum.

Um Danskinn orti Æri Tobbi:

Imbrum, bimbrum ambrum bambrum opin dæla

skaufra raufra skapin skæla

skrattinn má þeim dönsku hæla.

Ari Jósefsson hafði gaman af þvílíkum skáldskap og orti í 5. bekk MA „Atómvísur Æra-Tobba“:

Þambara skrambara skrítin er þessi veröld:

Sumir deyja úr sulti hér

en sumra fyllast gulli ker;

skíragulli skálka fyllast keröld.

Prangara mangara maður er hér á glugga.

„Við skulum ekki hafa hátt“

heldur tauta ofur lágt:

agara gagara ambrum bramb og skrugga.

Þessa stöku Æra Tobba hef ég kannast við síðan ég var barn, – ég man ekki hvers vegna:

Þambara vambara þeysingssprettir

því eru hér svo margir kettir?

Agara gagara yndisgrænum

illt er að hafa þá marga á bænum.

Hallgrímur Pétursson á að hafa kveðið við Æra Tobba:

Finnst þú Tobbi firðum hjá

flónsku reyrður hafti.

Tobbi svaraði:

Varaðu þig ef viltu ei fá

verst úr mínum kjafti.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is