— AFP
76 í hið minnsta hafa farist og mörg þúsund hafa þurft að flýja heimili sín í miklum flóðum sem hafa orðið á Indlandi í kjölfar monsúnrigninganna undanfarið.

76 í hið minnsta hafa farist og mörg þúsund hafa þurft að flýja heimili sín í miklum flóðum sem hafa orðið á Indlandi í kjölfar monsúnrigninganna undanfarið. Mest hefur mannfallið verið í Gujarat-fylki þar sem ellefu hafa látið lífið frá því á laugardag og er rigningin í fylkinu enn að aukast. „Sjö þeirra hafa látist síðasta sólarhringinn og að minnsta kosti fjögurra til viðbótar er enn saknað,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Pankaj Kumar hjá fylkisstjórninni í Gujarat.

Mikið tjón hefur einnig orðið í Arunachal Pradesh- og Assam-fylkjum þar sem miklar aurskriður hafa fallið. Indversk stjórnvöld hafa kallað herinn út til að taka þátt í björgunaraðgerðum í þeim fylkjum sem verst hafa orðið úti.

Ásamt Indlandi hafa mannskæð flóð og rigningar herjað á Kína og Japan undanfarið og hefur þar einnig látist fjöldi fólks vegna flóðanna.

urdur@mbl.is