— Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands
Flugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF, sem nú sinnir landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex), tilkynnti um skútu á Miðjarðarhafi sem sigldi með um 50 flóttamenn á leið til Ítalíu.

Flugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF, sem nú sinnir landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex), tilkynnti um skútu á Miðjarðarhafi sem sigldi með um 50 flóttamenn á leið til Ítalíu. Í kjölfarið voru tveir smyglarar handteknir, en frá þessu er sagt á Twitter-reikningi Frontex og í tilkynningu Gæslunnar.

TF-SIF er gerð út frá Ítalíu og verður þar til loka ágústmánaðar. Jakob Ólafsson, flugstjóri vélarinnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að áhöfnin hefði orðið vör við grunsamlega skútu og í kjölfarið tilkynnt um ferðir hennar.

„Síðan var óskað eftir að við færum aftur að skútunni til þess að fylgjast með henni þangað til breskt eftirlitsskip væri komið í færi,“ sagði Jakob, spurður út í málið.