Sigríður Breiðfjörð Pálsdóttir fæddist 14. ágúst 1925. Hún lést 11. júlí 2017.

Sigríður var jarðsungin 17. júlí 2017.

Það var sem tíminn stöðvaðist um stund þegar ég fékk fregnir af því að velgjörðamaður minn og einstök vinkona, Sigríður Breiðfjörð Pálsdóttir, væri látin. Minningarnar streymdu fram, litaðar sorg en jafnframt gleði og þakklæti, um eina þá allra bestu og merkilegustu manneskju sem ég hef kynnst um ævina, mömmu hennar Stínu vinkonu minnar.

Í mars árið 2002, á einhverjum snjóþyngsta vetri í manna minnum, bjó ég ein ásamt tæplega tveggja mánaða dóttur minni í Fögrubrekku á Sólheimum í Grímsnesi. Dóttir mín hafði veikst fyrst tveggja vikna gömul af RS-vírus og verið veik meira eða minna í þrjár vikur þar sem ég hafði þurft að þeysa með hana til Reykjavíkur á spítala oftar en einu sinni. Þá tók við magakrampi þannig að ég hafði gengið um gólf með grátandi barnið nánast allan sólarhringinn með allt of stuttum hléum vikum saman. Ég var orðin svo yfir mig þreytt, enda algjörlega svefnlaus, þegar Stína hringdi, til að spyrja hvernig gengi, að ég var allt í einu alls ekki viss hvort barnið væri að gráta eða ekki.

Stínu leist ekki á blikuna og kom keyrandi til mín í gegnum hríðina tveimur stundum síðar og bauð mér að koma í hvíld heim til sín. Þegar þangað var komið var mamma hennar, Sigríður, búin að útbúa barnarúm og notalegt herbergi handa mér.

Næstu dagar hverfa mér seint úr minnum. Ég fékk að sofa á meðan þær mæðgur gengu um gólf raulandi fyrir barnið. Aðstæður mínar voru þannig að ég stóð félagslega ein með þetta litla barn og var ekki með öflugt stuðningsnet í kringum mig sökum alvarlegra veikinda í fjölskyldunni. Þessu áttaði Sigríður sig á og bauð mér að vera hjá sér um skeið þannig að ég gæti fengið stuðning og hvíld. Kærleikurinn sem hún sýndi okkur mæðgum og hlýjan voru engu lík. Þarna vorum við í góðu yfirlæti og heilsufæði dögum saman þannig að ég náði að ná úr mér þreytunni og koma brjóstagjöf aftur í samt lag. Auk þess miðlaði hún mér af visku sinni og reynslu, sem var ómetanlegt fyrir nýbakaða móður.

Þarna fékk ég líka að kynnast Sigríði nánar. Bestar voru morgunstundirnar okkar, innihaldsríkar samræður um lífið og tilveruna yfir ljúffengum morgunverði; ilmandi te, heimalagað brauð með osti og hunangi. Hafragrautur með alls konar fræjum, hnetum og rjóma.

Það eru ekki allir tilbúnir að taka inn á heimili sitt fólk í neyð og deila með því lífi sínu, fæði og húsnæði líkt og Sigríður gerði. Í framhaldi af þessari dvöl bauð hún mér að ég mætti alltaf nýta mér að gista hjá henni ef ég þyrfti að fara á höfuðborgarsvæðið og nýtti ég mér það óspart. Alltaf var okkur tekið jafn vel, dóttur minni og mér, þannig að okkur fannst við eiga okkur athvarf í Vallargerði 39.

Þetta er gott dæmi um einstaka gestrisni og manngæsku Sigríðar. Hún veitti mörgum hjálparhönd og bauð að dvelja á heimili sínu; félitlum útlendingum í vanda, einstæðum mæðrum eða hverjum þeim sem henni þurfa þótti. Blessuð sé minning hennar.

Innilegar samúðarkveðjur, elsku Stína mín og fjölskylda.

Anna Margrét

Bjarnadóttir.