Sveinn Margeir Friðvinsson fæddist 19. september 1938. Hann lést 25. júní 2017.

Útför Sveins fór fram 3. júlí 2017.

Sveinn Friðvinsson er fallinn frá, Sveinn var Lionsfélagi í Lionsklúbbi Sauðárkróks og var hann einn af stofnendum klúbbsins 1964 og hefur starfað síðan eða í tæp 53 ár, oft setið í stjórn klúbbsins. Undirritaður er búinn að starfa með Sveini í nær 30 ár alltaf hefur hann verið virkur í öllu sem klúbburinn hefur tekið þátt í. Þá er efst í huga þegar gera átti eitthvað skemmtilegt fara með gamanmál, sögur eða brandara og var þá fyrst kallað eftir því hvort Sveinn væri ekki með eitthvað í vasanum og var það oftast, enda ekki maður til að skorast undan. Hann sagði einstaklega skemmtilega frá og var góður félagi í alla staði enda búið að veita honum æðstu viðurkenningu Lions sem er „Melvin Jones “-félagi. Ég kynntist persónulega Sveini fyrst sem strákur hér á Sauðárkróki alltaf glaðlegur og hlýr í viðmóti, hann var ökukennari og kenndi mér á bíl 1971 síðan lærði ég bifvélavirkjun á bílaverkstæði KS og þá vann Sveinn þar á skrifstofunni var oft glatt á hjalla hjá þeim félögum Sveini og Svavari.

Við Lionsfélagar kveðjum góðan félaga með söknuði og hlýjum minningum um góðan dreng. Sendum Ingibjörgu (Imbu) og aðstandendum öðrum innilegutu kveðjur. Megi blessun fylgja minningunni um Svein Friðvinsson.

Magnús E. Svavarsson,

formaður Lionsklúbbs

Sauðárkróks.