Strengir Sólveig mun leika á ítalska barrokkhörpu með þremur strengjaröðum og Coto Blanco leikur á tvær lútur. Önnur þeirra er með mörgum löngum bassastrengjum og langan háls svo það sé pláss fyrir strengina.
Strengir Sólveig mun leika á ítalska barrokkhörpu með þremur strengjaröðum og Coto Blanco leikur á tvær lútur. Önnur þeirra er með mörgum löngum bassastrengjum og langan háls svo það sé pláss fyrir strengina.
Þorgerður Anna Gunnarsdóttir thorgerdur@mbl.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

thorgerdur@mbl.is

„Við erum bæði tiltölulega nýbúin að ljúka námi í Bremen í Þýskalandi þar sem við spilum barokk- og endurreisnartónlist,“ segir Sólveig Thoroddsen hörpuleikari sem kemur fram á tónleikum ásamt lútuleikaranum Sergio Coto Blanco í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í kvöld klukkan 20.30, en tónleikarnir eru þáttur í sumartónleikaröð safnsins.

Coto Blanco er frá Kostaríku en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann heimsækir Ísland. „Þetta er í þriðja sinn sem hann heimsækir landið og honum finnst ósanngjarnt að aldrei sé talað um hann sem Íslandsvin,“ segir Sólveig og hlær, en það er að beiðni Coto Blanco sem hún tekur þetta fram.

Á tónleikunum segir Sólveig þau ætla fyrst og fremst að flytja tónlist frá 16. og 17. öld. „Við munum flytja lútudúetta úr enskum lútuhandritum og tvíleiki eftir ítalska teorbumeistara. Svo spilum við brot úr óperu eftir Claudio Monteverdi og verk frá upphafi 16. aldar.“

Í tilkynningu kemur fram að Sólveig hafi ung byrjað að syngja og hafi haft yndi af söng síðan. Aðspurð segir hún þó ekkert sönglag hafa orðið fyrir valinu á efnisskránni í þetta skipti. „Upphaflega hugmyndin var sú að ég myndi syngja en úrvalið var svo mikið að á endanum urðu engin lög með söng fyrir valinu, því miður. En mér finnst mjög gaman að syngja og syng mikið en á þessum tónleikum verður í mesta lagi aukalag sem verður sungið.“

Sólveig byrjaði að læra á hörpu 11 ára gömul þegar hún bjó í Bandaríkjunum og hélt svo áfram þegar hún flutti heim. „Ég fór svo í klassískt hörpunám í Wales og kláraði svo meistaranám í sögulega upplýstum flutningi á eldri gerðir hörpunnar í Bremen í Norður-Þýskalandi,“ segir hún og að á tónleikunum muni hún leika á ítalska barrokkhörpu með þremur strengjaröðum sem aðgreini hana svolítið frá öðrum hörpugerðum.

„Hljóðfærin tvö sem Sergio spilar á eru smíðuð í Kostaríku. Annað þeirra er lítil endurreisnarlúta með sex strengjapörum sem var mikið notuð á 16. öld og hin er löng bassalúta sem var mikið notuð við undirleik hjá söngvurum og einleikshljóðfærum snemma á barrokktímanum. Hún er með mörgum löngum bassastrengjum og langan háls svo það sé pláss fyrir strengina. Hún var til dæmis mikið notuð í fyrstu óperunum við upphaf 17. aldar,“ segir Sólveig.

Að lokum segir hún frá því að þau ætli að halda tónleika í Kostaríku í haust með svipaðri dagskrá. „Þá verðum við kannski með söng líka. Ef fólki líst vel á getur það skellt sér,“ segir hún og hlær.