Barátta Þýski varnarmaðurinn Josephine Henning og hin þrautreynda Lotta Schelin í leik Þýskalands og Svíþjóðar í Breda í gærkvöld.
Barátta Þýski varnarmaðurinn Josephine Henning og hin þrautreynda Lotta Schelin í leik Þýskalands og Svíþjóðar í Breda í gærkvöld. — AFP
Svíar fögnuðu vel í leikslok í Breda í gærkvöld eftir að hafa haldið jöfnu gegn áttföldum Evrópumeisturum Þjóðverja í B-riðli Evrópumóts kvenna í knattspyrnu.

Svíar fögnuðu vel í leikslok í Breda í gærkvöld eftir að hafa haldið jöfnu gegn áttföldum Evrópumeisturum Þjóðverja í B-riðli Evrópumóts kvenna í knattspyrnu.

Leikurinn endaði 0:0 þar sem Þjóðverjar sóttu mun meira en gekk illa að skapa sér færi gegn sterkum varnarleik sænska liðsins. Þetta er í fyrsta sinn sem Svíþjóð nær stigi af Þýskalandi á stórmóti.

Linda Sembrant fékk gott færi til að koma Svíum yfir í fyrri hálfleik en skallaði framhjá þýska markinu. Varamaðurinn Mandy Islacker var næst því að skora í seinni hálfleiknum fyrir Þjóðverja en Hedvig Lindahl í sænska markinu var vel á verði og sló boltann yfir markið.

Rússar lögðu Ítali, 2:1, í Rotterdam og eiga þar með fyrir höndum gríðarlega mikilvægan leik gegn Svíum sem getur farið langt með að ráða úrslitum um annað sæti riðilsins.

Elena Danilova og Elena Morozova skoruðu snemma leiks fyrir Rússa en Ilaria Mauro svaraði undir lokin fyrir Ítali sem síðan pressuðu gríðarlega, skoruðu mark sem dæmt var af og áttu skalla í þverslá í uppbótartímanum. vs@mbl.is