Jón Sveinsson fæddist 2. apríl 1927. Hann lést 1. júlí 2017.

Útför Jóns fór fram 8. júlí 2017.

Kær frændi er fallinn frá, hann Jón á Reyni. Okkur fjölskyldunni var brugðið og að okkur setti mikla sorg við að heyra af fráfalli hans. Hann var okkur öllum kær. Hans einstaka viðmót og glettni við bæði stóra og smáa laðaði að og það var ávallt tilhlökkunarefni að hitta þau Erlu í fyrstu ferð okkar í bústaðinn okkar á hverju ári og njóta nærveru þeirra.

Jón var næmur og vissi hvað Mýrdalurinn togaði í okkur feðga. Haustið 1987 nefndi ég við hann frænda minn hvort hægt væri að fá lóð undir sumarbústað í hverfinu. Síðar þegar við feðgar vorum að koma úr veiðiferð í Vatnsána renndum við í Reynishverfið. Eftir stutt spjall við Jón segir hann við mig: „frændi ertu búinn að velja þér stað?“ Þá höfðum við feðgar verið að ræða um það, að gaman væri að vera búnir að finna okkur lóð áður en afi yrði hundrað ára. Þá var Jón með ákveðinn stað í huga og þar stendur bústaðurinn í dag með ægifögru útsýni. Þar hefur fjölskyldan átt sælureit, sem ég veit að gaf Jóni líka gleðiríkar samverustundir með foreldrum mínum og föðursystkinum.

Það voru forréttindi að kynnast og njóta samverustunda með Jóni frænda. Hugulsemi og góðvild við okkur öll var einstök og hana ber að þakka við leiðarlok.

Elsku Erla mín, börn og fjölskyldur. Við Fríða og börn okkar sendum ykkur öllum innilegar samúðarkveðjur og biðjum ykkur Guðs blessunar í sorg ykkar. Minningin um einstakan mann lifir.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Ármann Óskar Sigurðsson.