Helgi Steinþórsson fæddist á Húsavík 1. nóvember 1951. Hann lést 30. júní 2017 á lungnadeild Landspítalans Fossvogi.

Foreldrar hans voru María Stefanía Aðalsteinsdóttir, fædd 3. júlí 1926 á Siglufirði, d. 20. október 2013, og Steinþór Helgi Karlsson, fæddur 22. júní 1925 í Veisuseli Fnjóskadal, d. 1. júlí 2005.

Systkini Helga eru Jón Heiðar, f. 1946, Ólína María, f. 1947, Þórdís, f. 1950, Hrönn, f. 1962 og Aðalsteinn, f. 1967.

Helgi kvæntist þann 2. október 1971 Karítas Jónu Gísladóttur, f. 30. maí 1953, frá Setbergi Sandgerði. Foreldrar hennar voru Guðmunda Jónasdóttir og Gísli Jónatan Einarsson. Synir Helga og Karítasar eru: 1) Guðmundur, f. 1971. 2) Steinar Már, f. 1976, unnusta hans er Rebecca Scattergood, dóttir hennar er Kelsey Grace, dætur Steinars eru: Ásdís Eva, Elva Dís og Íva Rún. 3) Gísli Jónatan, f. 1979, sambýliskona hans er Una Dís Fróðadóttir, dóttir þeirra er Svala Dís. 4) Davíð, f. 1984. Helgi og Kaja hófu búskap í Túnsbergi, Ásgarðsvegi 26 á Húsavík, en fluttu til Keflavíkur árið 1975 og bjuggu þar æ síðan, síðast á Freyjuvöllum 12, en þar byggðu þau sér hús.

Helgi ólst upp á Húsavík þar sem hann undi sér vel á Torginu svokallaða við leik og störf, hann stundaði skíði og spilaði einnig fótbolta með íþróttafélaginu Völsungi, hann var á sjó með föður sínum ásamt ýmsum öðrum störfum á Húsavík. Helgi lærði pípulagnir við Iðnskólann á Húsavík hjá Sigurði Jónssyni. Hann öðlaðist meistararéttindi árið 1978 og löggildingu árið 2002. Árið 1978 stofnaði hann fyrirtækið Pípulagnir s/f með Halldóri Magnússyni sem þeir ráku í sjö ár. Lengst vann Helgi hjá Keflavíkurverktökum, síðar Atafl, eða í 25 ár allt til ársins 2010. Helgi greindist með parkinsons-sjúkdóminn fyrir sjö árum og dró þá mjög úr starfsþreki hans og hætti hann alfarið störfum fyrir fjórum árum. Helgi söng í Karlakór Keflavíkur í rúm 30 ár og sat í stjórn hans um tíma. Hann hafði gaman af að ferðast utanlands sem innan og að vera úti í náttúrunni. Hann var mikill fjölskyldufaðir og naut þess að vera í faðmi fjölskyldunnar.

Útför Helga verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag, 18. júlí 2017, klukkan 13.

Elsku pabbi, það er komið að kveðjustund og hún kom fyrr en ég átti von á.

Þið mamma voruð bara unglingar þegar þið eignuðust mig, hún sautján ára og þú nítján og ég grínaðist stundum með að ég hefði verið fæddur í synd enda giftuð þið ykkur réttum 8 mánuðum eftir að ég kom í heiminn. Þú hefur kennt mér svo ótal margt og fyrir það er ég ævinlega þakklátur. Til dæmis furðar fólk sig stundum á því hvað hlutir í minni eigu endast lengi. Eins og úrið sem ég fékk í jólagjöf frá ykkur foreldrum mínum fyrir fermingu, það virkar fínt ennþá rúmum 30 árum síðar. Þú lagðir nefnilega alltaf mikla áherslu á að maður ætti að fara vel með og passa eigur sínar. Þetta fékkstu í arf frá henni ömmu sem var alveg eins hvað þetta varðar og er góður eiginleiki að hafa. Þú vildir hafa aga á heimilinu en hann var framreiddur með fullt af kærleika. Aginn sem ég fékk að heiman kom sér vel þegar ég byrjaði að æfa ballett í Listdansskóla Þjóðleikhússins og ég held að það veganesti hafi hjálpað mér að verða atvinnudansari.

Þú varst gífurlega vinnusamur og það þurfti sko sjaldan að bíða eftir því að þú gengir í verkin. Ég er afskaplega þakklátur fyrir hvernig þú stóðst við bakið á mér á lífsins braut og það hvernig þú brást við þegar ég kom út úr skápnum fyrir ykkur mömmu var hræddum ungum manni ómetanlegt. Ég vildi að allt ungt fólk sem kemur út fyrir sínum nánustu ætti stuðningsfólk eins og ykkur mömmu.

Þú varst mikið í íþróttum á þínum yngri árum og það var gaman að fylgjast með hversu ástríðufullur þú gast verið yfir boltaleik eins og til dæmis þegar Ísland vann leikinn mikilvæga í B-keppninni í handbolta um árið. Sömuleiðis var yndislegt að fylgjast með ykkur félögunum í Karlakór Keflavíkur og þeir voru nokkrir tónleikarnir sem ég kom á, sérstaklega ef uppáhaldslagið mitt Seljadalsrósin var á dagskrá en það var víst ekki hægt að syngja það alltaf. Seinna varst þú svo duglegur að koma og hlusta á mig þegar ég fór að syngja með Hinsegin kórnum.

Það er gaman að deila áhugamálum með sínum nánustu en hversdagurinn er ekki síður eftirminnilegur og öll ferðalögin innan lands sem utan. Það var gaman að fá að sýna ykkur mömmu heimaborgirnar mínar, Stokkhólm og New York þegar ég bjó þar og þið komuð í heimsókn. Já, minningarnar eru margar og gott að ylja sér við þær.

Ég fékk reglulega að heyra að ég ætti svo unglega foreldra og það var alveg fræðilegur möguleiki að við myndum dvelja á elliheimili samtímis. En svo bankaði Parkinsonsjúkdómurinn upp á og þú þessi sterki, duglegi maður þurftir að hægja á ferðinni og takast á við þá áskorun. Það gerðir þú af æðruleysi en ég veit að eftir því sem fór að halla undan fæti þá minnkuðu lífsgæðin þín. Mér fannst hábölvað að þú þyrftir að draga þennan djöful og hefði gert ansi margt til þess að létta þér byrðarnar af þér ef hægt hefði verið.

„Sorgin er gjald kærleikans“ en þó er léttir að vita að þú þarft ekki að þjást lengur.

Takk fyrir allt, elsku pabbi.

Þinn sonur

Guðmundur (Mummi).

Í dag kveðjum við mág okkar hann Helga, þann yndislega dreng, sem kom inn í okkar fjölskyldu þegar hann kvæntist Kaju systur er þau voru ung að árum. Minningarnar eru orðnar ótal margar og ekki hægt að telja upp hér. Við þökkum fyrir allt og allt.

Elsku Kaja og fjölskylda, við vottum ykkur okkar innilegustu samúð.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíl í friði, elsku Helgi okkar.

Sigríður Burny,

Þóra Gísladóttir,

Svanfríður Gísladóttir.

Fjórtán ára gamall hitti ég Helga fyrst, þá bankaði hann upp á hjá okkur heima á Setbergi, mínu æskuheimili. Þá var hann orðinn skotinn í stóru systur minni. Skemmtilegar minningar sem rifjast upp frá þeim tíma. Ekki hefði ég trúað því þá að þessi strákur væri tilvonandi mágur minn og ævifélagi í blíðu og stríðu. Kaja systir og Helgi voru gift tveimur árum eftir þessi fyrstu kynni mín af honum. Helgi reyndist systur minni og drengjum þeirra einstaklega góður alla tíð.

Ég elti þau svo þegar þau fluttu á Hátúnið og leigði hjá þeim herbergi þar til ég stofnaði mína eigin fjölskyldu og byggði mér hús. Helgi hjálpaði mér mikið í húsinu. Hún er ómetanleg öll hjálpin sem hann veitti okkur. Við vorum öll að byggja systkinin og hann gekk með okkur hús úr húsi og aðstoðaði okkur öll. Ég man svo vel þegar hann einangraði húsið okkar þegar við vorum að byggja á Setbergi. Hvernig hann skreið um allt í hettupeysu reimaðri upp fyrir höfuð. Hann var mjög handlaginn maður, pípari að mennt en gat lagt allt fyrir sig sem hann ákvað að vinna að. Þegar hann var búinn að læra og var kominn með verkstæði fór ég að vinna hjá honum. Það var gaman að vinna með Helga, það gekk vel undan honum og ekki skemmdu samverustundirnar fyrir, það var oft hlegið og fíflast og mikið stuð í vinnunni. Seinna kom hann svo og vann hjá mér á smíðaverkstæðinu. Góðir félagar og mágar. Ég þakka fyrir það.

Þegar hann og Kaja eignuðust fjölskyldu þá fórum við oft í ferðalög saman. Það eru dýrmætar stundir sem fjölskyldur okkar áttu saman á ferðalagi um landið okkar. Já, við fórum víða og gerðum margt saman. Hann var alltaf tilbúinn í að spila fótbolta með krökkunum, fara í leiki og gleðjast með þeim. Hafði svo gott lag á þeim og gat ávallt gefið ráð þegar eitthvað bjátaði á. Þegar við eltumst fórum við nokkrum sinnum til sólarlanda og þar var oft glatt á hjalla, já það er gaman að rifja það upp. Góður vinskapur var milli barna okkar og á erfiðum tímum í lífi okkar stóðst þú mér við hlið. Ég met það mikils.

Þakklæti er okkur hjónum ofarlega í huga, elsku Helgi minn. Við viljum þakka alla hjálpina, samveruna og tímann þegar við vorum að vinna saman, ávallt eins og vel smurð vél. Já, það er margs að minnast á heilli mannsævi. Takk fyrir alla hjálpina, spjallið, vináttuna, skilninginn, samfylgdina og samverustundirnar.

Við vottum Kaju okkar, Mumma, Steinari, Gísla, Davíð og fjölskyldum dýpstu samúð.

Gott mannorð er betra en mikill auður, vinsæld er betri en silfur og gull.

(höf.ók)

Megi sál þín lifa ætíð í ljósinu fagra. Farðu í friði, kæri vinur.

Kærleikskveðja, með þökk fyrir allt.

Páll, Ósk og fjölskylda.

Það er alltaf jafn óvænt að frétta af fráfalli góðs vinar og félaga. Ég brá mér inn í Nettó í Reykjanesbæ síðastliðinn fimmtudag og hitti þá tvo félaga úr Karlakór Keflavíkur sem sögðu mér að Helgi Steinþórs væri farinn frá okkur. Allt í einu fannst mér eitthvert tómarúm í lífinu.

Kynni okkar Helga hófust er ég byrjaði að starfa með Karlakór Keflavíkur haustið 1989. Ég söng rödd annars tenórs og var bent á að standa hjá tveim ungum mönnum, Sigga Magg og Helga Steinþórs, þeir væru báðir vanir og myndu kenna mér raddirnar fljótt og rétt, því báðir voru næmir og með góða tónheyrn. Nær alltaf síðan stóðum við Helgi saman á æfingum, hann vinstra megin við mig. Í mörg ár höfðum við það hlutverk, á tónleikum við jarðarfarir og ýmsa aðra viðburði, að sjá um og setja upp fána kórsins og á tímabili uppsetningu á söngpöllum. Einnig unnum við saman í stjórn karlakórsins um nokkurt skeið. Oft ef við fórum í söngferðir, konulausir, deildum við saman herbergi.

Vinskapur okkar Helga var traustur þó við hittumst ekki mjög oft utan söngæfinga. Ég flutti í hverfið hans og bjó í næstu götu og átti það stundum til að líta við hjá honum í kaffisopa eftir að hann hætti vinnu vegna veikinda. Helgi var pípulagningamaður og fær í sinni grein. Hann starfaði lengst af hjá Keflavíkurverktökum, bæði sem óbreyttur pípari og einnig sem deildarstjóri. Oftar en ekki hringdi ég til hans og bað um aðstoð þegar mig brast kunnáttu til að stilla ofnakerfið hjá mér. Alltaf brást hann vel við.

Fyrir nokkrum árum fór Helgi að finna fyrir sjúkdómseinkennum sem urðu til þess að hann taldi sig ekki geta stundað söngæfingar, átti orðið erfitt með að standa og fannst hann gleyminn á texta og með slæmt jafnvægi. Stuttu áður hafði hann hætt almennri vinnu af sömu ástæðu. Þó svo að hann væri hættur að starfa í kórnum mætti hann á alla þá tónleika og aðra viðburði sem hann gat. Ég syrgi góðan vin og félaga. Við Sigrún sendum fjölskyldu Helga samúðarkveðjur, megi góður Guð halda verndarhendi yfir ykkur.

Úlfar og Sigrún.

Elsku Helgi frændi minn. Frændi minn með hlýja faðminn. Frændi minn með fallegu röddina sína. Frændi minn sem var alltaf boðinn og búinn að hjálpa og aðstoða ef á þurfti að halda. Frændi minn sem vildi öllum vel og mátti aldrei sjá neitt aumt. Frændi minn með fallega hjartalagið og ljúfa sál. Ég kemst því miður ekki að kveðja þig. Takk fyrir allt, þú varst einstakur.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Elsku Kaja, Mummi, Steinar, Gísli, David og fjölskyldur, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi allt gott vernda ykkur og styrkja og fallegar og hlýjar minningar ylja ykkur um ókomin ár.

Ástarkveðjur,

Guðný Þóra og Ásgeir.