[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Gangi spár Íslandsbanka eftir verður þokkalegt jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaði komið á árið 2019, segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali við Morgunblaðið.

Baksvið Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Gangi spár Íslandsbanka eftir verður þokkalegt jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaði komið á árið 2019, segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali við Morgunblaðið.

Í nýrri Þjóðhagsspá Íslandsbanka fram til ársins 2019 segir að fjárfesting í íbúðarhúsnæði hafi tekið mikinn kipp á síðasta ári eftir að hafa verið í lægð allt frá lokum síðasta áratugar. „Vöxturinn nam rúmum þriðjungi, og var hann hraðari á seinni helmingi ársins en þeim fyrri. Margir þættir ýta undir íbúðafjárfestingu um þessar mundir. Kaupmáttur heimilanna hefur aukist hröðum skrefum og fjárhagsleg staða þeirra styrkst, lánskjör hafa batnað og fólksfjölgun hefur verið allhröð. Í kjölfarið hefur raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað hratt,“ segir í þjóðhagsspánni.

Spáin gerir ráð fyrir að íbúðafjárfesting muni vaxa um 25% nú í ár, 16% á næsta ári, og 9% árið 2019.

Leiðir til lægri verðbólgu

Spurður að því hvað þetta þýði fyrir íbúðaverð segir Jón Bjarki að draga muni saman með hækkun íbúðaverðs og almennri verðlagshækkun. Eftir því sem dregur úr hækkunum íbúðaverðsins dempist áhrifin af því þegar styrkingu krónunnar linni. „Þetta ætti að leiða til lægri verðbólgu því lækkun á innflutningsverðlagi hefur vegið þungt á móti mikilli innlendri kostnaðarhækkun. En þá spilar þetta á móti, að bæði verður hægari taktur í spánni í launahækkunum og íbúðaverði. Þetta ætti að skila okkur tiltölulega hóflegri verðbólgu, á bilinu 2,5-3% allan spátímann.“

Jón Bjarki segir að stóru skilaboðin í þjóðhagsspánni sé að vísbendingum sé að fjölga um að Ísland sé komið á seinni hluta hagsveiflunnar, og byrjað sé að draga úr vextinum sem náði hámarki á síðasta ári. „En vegna þess hve stoðir hagkerfisins hafa styrkst mikið það sem af er áratugnum þá eru horfur á þýðri lendingu hjá okkur í þetta skipti.“

Jón Bjarki bendir einnig á að þó að vöxtur hafi verið hraður í hagkerfinu síðustu misseri, sem minni marga á árin fyrir hrun, þá sé sá grundvallarmunur á að þenslan sé ekki tekin að láni eins og þá var.

En er eitthvað sem ástæða er til að varast sérstaklega á næstu miserum?

„Það sem er skeinuhættast er samspil gjaldeyris-, íbúða-, og vinnumarkaðar. Ef mikið bakslag verður í ferðaþjónustunni þá verður það til þess að störfum fækkar, fasteignaverð getur tekið tímabundna dýfu og niðursveifla verður í gjaldeyrisflæðinu, sem gæti haft í för með sér verðbólguskot, sem dregur líka úr kaupmættinum. Allt þetta gæti haft keðjuverkandi áhrif og orsakað tímabundið bakslag í þjóðarbúskapnum,“ segir Jón Bjarki.

Þjóðhagsspá til 2019
» Aukning kaupmáttar verður að jafnaði ríflega 3% á ári.
» Gert er ráð fyrir 7,6% vexti einkaneyslu í ár, ríflega 5% vexti á næsta ári og tæplega 3% vexti árið 2019.
» Styrking krónunnar hægari en verið hefur. Horfur eru þó á tiltölulega sterkri krónu á spátímanum.
» Virkum stýrivöxtum haldið óbreyttum næsta kastið.