Busl Þótt það sé gott að slappa af kjósa sumir frekar að busla í pottunum.
Busl Þótt það sé gott að slappa af kjósa sumir frekar að busla í pottunum. — Morgunblaðið/Eggert
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Sala á heitum pottum hefur aukist mjög síðustu ár, en hjá nokkrum verslunum er sumarið í sumar hápunktur sölunnar eftir efnahagshrunið árið 2008.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Sala á heitum pottum hefur aukist mjög síðustu ár, en hjá nokkrum verslunum er sumarið í sumar hápunktur sölunnar eftir efnahagshrunið árið 2008.

Í samtölum Morgunblaðsins við nokkra sölumenn heitra potta kom fram að ferðamannaiðnaðurinn hefði haft nokkur áhrif, en einnig að Íslendingar létu sitt síst eftir liggja. Heitipotturinn væri enda „besta afslöppunin fyrir stressaða þjóð“.

Bæði virðist aukning í sölu rafmagnspotta og skelja sem smíða má inn í sólpalla.

Hefur selt 330 potta í sumar

„Fyrsta maí átti ég 350 potta á lager og hef aldrei átt jafn mikið og þá. Ég á tuttugu potta eftir núna og sumarið er ekki hálfnað. Þetta átti að duga mér til áramóta,“ segir Kristján Berg Ásgeirsson, eigandi fyrirtækisins Heitirpottar.is. Hann segir að sterkt gengi hafi haft áhrif á söluna, en einnig að uppsöfnuð þörf sé nú að koma í ljós. „Ég held að þjóðin hafi haldið að sér höndum meðan við komumst yfir stóran hjalla eftir hrunið,“ segir hann.

„Fólk fjárfestir mikið í vellíðan. Í þessum hraða, þegar fólk er með kveikt á útvarpi, í iPadinum, snjallsímunum og þessu öllu, getur verið gott að slökkva á tækjunum, spjalla saman í heitum potti og njóta augnabliksins,“ segir hann.

Flestir nú með kaupgetuna

„Það hefur verið gríðarleg eftirspurn í sumar. Töluvert meiri en undanfarin ár,“ segir Steinar Þór Þórisson, framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins Laugin.is, sem selur aðallega viðhaldsvörur og annað tengt heitum pottum.

Nýlega fékk fyrirtækið umboð fyrir rafmagnspotta af gerðinni Caldera og hafa þegar selst nokkrir pottar í sumar.

„Það hefur verið gríðarlegur vöxtur í þessu síðustu ár,“ segir Jón Bergsson hjá fyrirtækinu Jóni Bergssyni.

„Fyrir u.þ.b. tveimur árum fór þetta að aukast. Nú eru flestir með kaupgetu og þegar gengið er komið á sinn sterka stað líkt og núna stekkur fólk til og notar tækifærið áður en gengið lækkar aftur,“ segir hann.

Aðspurður segir hann sölutölurnar nú hærri en þær sem voru á árunum fyrir hrun, en þá var síðasti toppur í sölu heitra potta.

Pottarnir fjölskylduvænir

Kjartan Ragnarsson hjá NormX tekur í sama streng og segir söluna mikla og vaxandi. „Stærsta árið okkar var í fyrra. Bæði er þetta ferðaþjónustan en líka einstaklingar. Við erum með lágt verð og mikla gæðavöru, sterka potta, og teljum okkur sterka á markaðnum,“ segir hann. Aðspurður segir Kjartan að áhugi Íslendinga á heitum pottum helgist af því að þeir séu fjölskylduvænir.

„Þetta er náttúrlega gífurlega fjölskylduvænt og besta afslöppunin fyrir stressaða þjóð,“ segir hann.