Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Eftir Hjörleif Hallgríms: "Ég lýsi hér með allri ábyrgð á þá Engeyjarfrændur, Bjarna og Benedikt, að til skuli vera sárafátækt á Íslandi."

Einu sinni enn hendir hið óþurftar Kjararáð sprengju inn í þjóðfélagið og nú með óskiljanlegri hækkun á hátekjufólkið í opinbera geiranum. Þetta er þvílík hneisa og lýsir sér í launahækkunum á þetta fólk svo tugum prósenta nemur og hvorki meira né minna en upp á hundruð þúsunda á mánuði. Ekki nóg með það heldur eru þessar ofurhækkanir afturvirkar í marga mánuði og allt upp í vel á annað ár og ellilífeyrisþegar borga. Þetta á sér stað á meðan þeir hinir sömu í tugum þúsunda talið svelta, þ.e. eiga ekki fyrir mat, lyfjum, lækniskostnaði eða öðru sjálfsögðu til lífsviðurværis og þá eru ótaldir t.d. tónleikar, leikhús og aðrar skemmtanir til afþreyingar, svo ekki sé talað um utanlandsferðir, sem t.d. Kjararáðsfólkið fer í jafnvel oft á ári.

Engeyjarfrændurnir, auðmennirnir og ráðherrarnir, æðstu menn þjóðfélagsins, þeir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, sem geta auðveldlega tekið í taumana, láta sér ósómann í léttu rúmi liggja. Menn, sem velta sér upp úr auðæfum og gera allt til að þeir ríku verði ríkari og fátækir fátækari og stuðla þar með leynt og ljóst að því að tvær þjóðir verði til í þessu landi því bilið breikkar alltaf. Þetta er ömurlegt.

Ofurlaunafólk fyrirtækja

Þessir tveir frændur geta lítið gert að því þó að fyrirtæki sem ekki eru í ríkiseign borgi há laun en fyrr má nú rota en dauðrota þegar starfsmenn eru með í mánaðarlaun upp í milljónir og jafnvel tugi milljóna.

Ráð við þessu eru t.d. að fara í verulegan hátekjuskatt, svo ég tali nú ekki um auðlegðarskatt, sem auðvelt er að útfæra þannig að réttlátlega komi niður, sérstaklega hlut af ellilífeyrisþegum. Svo er það að sjálfsögðu virðisaukaskatturinn sem alltof margir sleppa við og er þar um að ræða háar fjárhæðir. Af framantöldu væri þarna um að ræða einhverjar launahækkanir fyrir ellilífeyrisþega, þó að ekki væri nema að skila því sem af þeim hefur verið stolið blygðunarlaust í gegnum árin.

Ellilífeyrisþegar eru flestir fólkið sem alla sína ævi hefur unnið hörðum höndum við uppbyggingu þessa þjóðfélags og á betra skilið en að vera með um 200 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun. Ég lýsi hér með allri ábyrgð á þá Engeyjarfrændur, Bjarna Benediktsson og Benedikt Jóhannesson, að til skuli vera sárafátækt á Íslandi. Það er þeim að mestu að kenna að nú í sögulegu góðæri allra tíma er ástandið slíkt í landinu.

Svo er það önnur saga að aðrir stjórnmálamenn á Alþingi Íslendinga en þeir frændur skuli ekki gera neitt í að koma ellilífeyrisþegum til aðstoðar. Aðeins heyrist veikt mjálm í þessu fólki, sem enginn tekur mark á og meira að segja Framsóknarmenn, sem kenna sig við jafnrétti og samvinnu, þegja þunnu hljóði.

Krafan er 300 þúsund á mánuði fyrir hjón og sambýlinga hvorn um sig eða 600 þúsund samtals og 400 þúsund á mánuði fyrir einstaklinga.

Höfundur er eldri borgari á Akureyri.