Látinn George A. Romero árið 2009.
Látinn George A. Romero árið 2009. — AFP
Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn George A. Romero, sem umbylti hryllingsmyndaiðnaðinum með því að finna upp geira uppvakningamyndarinnar í kvikmyndinni Night of the Living Dead árið 1968, er nú sjálfur genginn til liðs við hina framliðnu.

Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn George A. Romero, sem umbylti hryllingsmyndaiðnaðinum með því að finna upp geira uppvakningamyndarinnar í kvikmyndinni Night of the Living Dead árið 1968, er nú sjálfur genginn til liðs við hina framliðnu. Frá þessu er greint á vefsíðu breska fjölmiðilsins The Guardian . Peter Grunwald, meðframleiðandi Romeros, tilkynnti The Los Angeles Times að leikstjórinn hefði andast í svefni eftir „stuttan en harðan bardaga gegn lungnakrabbameini“. Romero var 77 ára að aldri.

Night of the Living Dead var framleidd með mjög litlu fjármagni en vakti þó athygli á sínum tíma með því að tvinna saman hrollvekju og ádeilu um neytendahyggju, kynþáttafordóma og önnur samfélagsmein. Romero átti eftir að leikstýra fimm framhaldsmyndum í uppvakningageiranum, oft með margra ára millibili: Fyrst kom Dawn of the Dead (1978), svo Day of the Dead (2005), Land of the Dead (2005), Diary of the Dead (2007) og síðast Survival of the Dead (2009). Kvikmyndir og sjónvarpsþættir um uppvakninga líkt og Shaun of the Dead (2004), Zombieland (2009) og The Walking Dead (2015-) eru undir miklum áhrifum frá myndum Romeros.