Með barítónsaxófón Rósa Guðrún Sveinsdóttir með hljóðfærið volduga.
Með barítónsaxófón Rósa Guðrún Sveinsdóttir með hljóðfærið volduga.
Tónleikaröðin Freyjujazz heldur áfram og í hádeginu í dag er það Rósa Guðrún Sveinsdóttir sem ætlar að leika í Listasafni Íslands ásamt Sunnu Gunnlaugsdóttur píanóleikara sem er einnig listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar.

Tónleikaröðin Freyjujazz heldur áfram og í hádeginu í dag er það Rósa Guðrún Sveinsdóttir sem ætlar að leika í Listasafni Íslands ásamt Sunnu Gunnlaugsdóttur píanóleikara sem er einnig listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar.

Rósa Guðrún er barítónsaxófónleikari og ætlar að leika lög eftir sjálfa sig og aðra barítónsaxófónleikara á borð við Gerry Mulligan.

Hún útskrifaðist í vor frá FÍH sem rytmískur barítónsaxófónleikari. „Ég er í rauninni fyrst kvenna til að útskrifast úr rytmískum saxófónleik frá FÍH,“ segir Rósa Guðrún, en hún spilar í fjölda íslenskra hljómsveita. „Fólk þekkir mig aðallega úr popp- og rokkheiminum. Ég spila með Mugison og Jónasi Sig og Ritvélum framtíðarinnar. Í vetur hef ég verið að spila aðeins með Tómasi R. Einarssyni, svona til að nefna eitthvað.“

Aðspurð segir hún ekki mikið um árekstra varðandi gigg. „Það er alveg furðulega sjaldgæft. Reyndar skarast mannskapurinn í Mugison og Jónasi Sig og Ritvélunum aðeins, það er sami bassaleikari og trommuleikari í sveitunum svo það passar ágætlega,“ segir hún að lokum.

Tónleikarnir hefjast að venju klukkan 12.15 og standa yfir í hálftíma.

Freyjujazz er hádegistónleikaröð sem fer nú fram í annað sinn vegna vinsælda. Í Freyjujazzi er lögð áhersla á að auka sýnileika kvenna í djassi og segir í tilkynningu að a.m.k. ein kona þurfi að vera meðal flytjenda í hvert sinn. thorgerdur@mbl.is