Guðlaugur Jónsson fæddist í Norðurhjáleigu í Álftaveri 21. janúar 1930. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 10. júlí. 2017.

Foreldrar hans voru Þórunn Pálsdóttir, f. 5. september 1896, d. 27. október 1998, og Jón Gíslason, f. 11. janúar 1896, d. 2. apríl 1975.

Systkini Guðlaugs eru: Þórhildur, f. 1918, d. 1996, Júlíus, f. 1920, d. 2009, Gísli, f. 1921, d. 2010, Pálína, f. 1923, d. 2010, Böðvar, f. 1925, d. 2013, Sigurður, f. 1926, d. 2000, Guðlaug, f. 1927, d. 1927, Jón, f. 1931, Fanney, f. 1933, d. 2016, Sigrún, f. 1935, d. 2014, Sigþór, f. 1937, d. 2016, og Jónas, f. 1939.

Guðlaugur kvæntist 14. maí 1966 Gróu Sæbjörgu Tyrfingsdóttur frá Lækjartúni í Ásahreppi, f. 23. júní 1936. Barn Guðlaugs og Hafdísar Steingrímsdóttur er Helga, f. 4. júlí 1965.

Börn Guðlaugs og Sæbjargar eru: Þórir Jón, f. 27. desember 1966, d. 14. desember 1995, kvæntur Önnu Maríu Guðmann, f. 6. október 1966, barn þeirra er Þórey Lísa, f. 18. júní 1995. Eiginmaður Önnu Maríu er Adam Traustason, f. 11. júní 1968. Synir þeirra eru: Trausti Lúkas, f. 16. júlí 2002, og Breki Mikael, f. 9. janúar 2004. Inga Kristín, f. 2. desember 1967, gift Stefáni E. Sigurðssyni, f. 14. júlí 1968. Þau eiga þrjú börn: Guðlaug Vigni, f. 17. september 1996, sambýliskona Nanna Óttarsdóttir, Thelmu Kristínu, f. 9. október 1998, og Eðvald Þór, f. 11. október 2003. Guðlaug Björk, f. 4. mars 1971, gift Hlyni S. Theodórssyni, f. 23. maí 1970. Þau eiga þrju börn og eitt barnabarn: Valtý Frey, f. 29. janúar 1992, sambýliskona Gunnhildur Ósk Guðmundsdóttir, Brynju Sif, f. 26. febrúar 1994, sambýlismaður Bjarki Bárðarson, barn þeirra er Birkir Heiðar, f. 24. mars 2016, Sæbjörgu Evu, f. 28. maí 1999.

Guðlaugur var áttundi í röð 13 systkina, hann ólst upp í foreldrahúsum í Norðurhjáleigu í Álftaveri. Hann stundaði nám í farskóla í Álftaveri og lauk þaðan barnaskólaprófi. Hann vann við bú foreldra sinna og fór á vertíð í Vestmannaeyjum. Hann hóf búskap í Sumarliðabæ árið 1962 og bjó þar ásamt Sæbjörgu konu sinni frá 1966 til 1972, þegar þau keyptu jörðina Voðmúlastaði sem var heimili þeirra upp frá því. Hann ræktaði jörðina og skepnurnar af natni og útsjónarsemi og leið best þar við fjölbreytt bústörf. Mestan áhuga hafði hann á fénu þar sem hann þekkti hverja kind með nafni og númeri, ætt hennar og afkvæmi. Hestarnir áttu líka hug hans og hafði hann yndi af að spá í ræktun þeirra og að fara á bak góðum hesti. Árið 1996 hættu þau Sæbjörg búskap, þá tók við annar kafli í lífinu, þau fluttu í nýtt íbúðarhús á jörðinni og komu sér upp aðstöðu þar til að skera út, renna, smíða og vinna ýmsa muni úr tré, sér til ánægju. Hann tók virkan þátt í starfsemi ýmissa félaga í sveitinni og veitti nokkrum þeirra forystu. Söngur var eitt af áhugamálum hans og söng hann í kirkjukór og karlakór ásamt kvartett með bræðrum sínum, einnig söng hann í kór eldri borgara. Hann var laghentur og hafði metnað til að gera hlutina sem best úr garði og átti það til að gleyma stað og stund þegar hann sökkti sér í verkefni sín.

Útförin fer fram frá Voðmúlastaðakapellu í Austur-Landeyjum í dag, 18. júlí 2017, og hefst athöfnin klukkan 11.

Elskulegur tengdapabbi er látinn.

Hann tók mér opnum örmum þegar við Gulla fórum að rugla saman reytum og ég fór að venja komur mínar að Voðmúlastöðum.

Betri leiðbeinanda og fyrirmynd get ég ekki hugsað mér þegar við komum inn í búskapinn með þeim eftir að sonur þeirra Þórir Jón, lést úr krabbameini 29 ára gamall árið 1995. Við tókum svo formlega við búinu 1. janúar 1997 og ómetanlegt var að hafa þau Lauga og Sæbjörgu í nágrenninu og geta leitað til þeirra með hin ýmsu úrlausnarefni. Við tókum við afskaplega snyrtilegu og vel reknu búi sem þau höfðu byggt upp af miklum myndarskap frá því að þau keyptu jörðina 1972.

Laugi hætti eiginlega aldrei að búa, svo mikið hjálpaði hann okkur auk þess sem þau sáu að mestu um kindurnar fram að þessu ári. Laugi var einstaklega barngóður og börnin okkar fóru ekki varhluta af því og sóttu mikið í að vera „vesturfrá“eins og það er kallað að fara yfir til þeirra. Eins eftir að barnabarnið okkar, Birkir Heiðar, kom til sögunnar sáum við mikla væntumþykju af beggja hálfu.

Ég þakka fyrir að hafa fengið að njóta Lauga í leik og starfi en við sungum saman bæði í kirkjukórnum og Karlakór Rangæinga í mörg ár og ferðuðumst víða bæði innanlands og erlendis með þessum kórum. Yndislegt var að upplifa hvað hann naut þess að sjá framandi staði og vera í góðum félagsskap ferðafélaga.

Í febrúar greindist Laugi með krabbamein í skjaldkirtli sem var svo fjarlægt. Hann átti síðan ágæta daga og gat fylgst með og keyrt um á sexhjólinu sínu. Í vikunni sem hann var fluttur á spítala höfðu hann og Sæbjörg verið að girða og einnig fór hann að fylgjast með fénu niðri í mýri, þannig að það má segja að hann hafi verið bóndi fram á síðasta dag.

Takk, elsku Laugi, fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína.

Hvíl í friði.

Læt hér fylgja með ljóð sem Jón Smári Lárusson samdi fyrir mig þegar Laugi hélt upp á 70 ára afmælið sitt og lýsir honum vel.

Skapgerð trausta hefur hann

heill í gegn og drengur góður.

Tryggan förunaut sér fann

fagur vex þeim vallargróður.

Vel til allra verka kann

velur skepnum besta fóður.

Að þekkja þennan mæta mann

mælist okkar stærsti sjóður.

Hlynur Snær Theodórsson.

Elsku Laugi afi. Nú þegar þú ert farinn frá okkur er skrítið til þess að hugsa að þú verðir ekki „vesturfrá“, þar sem alltaf var hægt að sækja þinn félagsskap og ráðgjöf. Af gömlum vana munum við líklega leita að þér fyrir framan rennibekkinn inni í smíðakompu. Þar hafa óendanlega mörg listaverkin orðið til eftir þig. Þar kenndir þú okkur margt nytsamlegt og skemmtilegt sem er ofarlega í huga þegar við horfum til baka. Við vorum ekki gömul þegar þú fórst að kenna okkur að negla og tálga spýtur, flétta bönd og skera út. Þetta voru dýrmætar samverustundir sem ekki munu gleymast.

Að lýsa þér í einu orði er mjög einfalt: bóndi. Það má með sanni að segja að þú hafir verið bóndi fram á þína síðustu daga, þeim varðir þú að hluta í girðingarvinnu og eftirlit með skepnum. Það var tilkomumikið að fylgjast með þér sinna bústörfunum, ekki síst fjárhússtörfunum. Þar varst þú á heimavelli og þekktir hverja einustu kind með nafni og númeri. Fátt gerði þig jafn ánægðan og þegar sauðburður hófst eða að fá að þukla góðan hrút. Það var alltaf jafn gaman að fara með þér að heilsa upp á kindurnar og dekra þær.

Betri afa er erfitt að hugsa sér. Þú varst alltaf svo góður og yndislegur og lést ekkert hindra þig frá því sem þú ætlaðir þér. Við munum minnast þess hve brosmildur, sterkur og hraustur þú varst alla ævi. Það eru forréttindi að hafa fengið að alast upp með þér á torfunni, þín verður sárt saknað.

Hvíldu í friði.

Kvölda tekur, sest er sól,

sígur þoka' á dalinn.

Komið er heim á kvíaból

kýrnar, féð og smalinn.

(Óþekktur höfundur)

Þín barnabörn,

Valtýr Freyr, Brynja Sif og Sæbjörg Eva.

Elsku Laugi, að sitja og skrifa þér þessa kveðju er ljúfsár stund með tárum og brosum í bland, ég er jafnvel örlítið skömmustuleg. Margar eru minningarnar sem ylja eftir dvöl mína sem barn hjá ykkur Sæbjörgu á Voðmúlastöðum. Svo mikil var sveitasóttin að ég tók vorprófin fyrr til að komast nógu snemma í sauðburð og fór ekki heim fyrr en skóli hófst að hausti.

Ég var ósköp lítil þegar ég kom til ykkar fyrsta sumarið, enda síðan kölluð Lóa litla af ykkur hjónum þó að fullorðinsaldri væri náð, það er heldur ekki fjarri sannleikanum þar sem ég er nú frekar lágvaxin. Systkinin þrjú höfðu nokkuð á mig í aldri, stærð, styrk og úthaldi. En það var einmitt þessi mismunur sem kom mér alla jafna í mestu vandræðin. Eins og eðlilegt er þá leit ég mikið upp til þeirra. Þóri Jón elti ég á röndum með stjörnur í augum, ég furða mig oft á þolinmæðinni sem hann sýndi mér, Inga Kristín var auðvitað nánast fullorðin í mínum augum, átti kærasta, kunni að klippa hár og stöðva blóðnasir, og Gulla, sem næst mér var í aldri, átti flottasta kassettutækið á Íslandi og var að mínu mati fyndnust allra. Þeim vildi ég líkjast og ekki vera eftirbátur í neinu. Í þessum aðstæðum ætlaði ég mér oft um of sem útskýrir bæði vandræðin og skammartilfinninguna sem ég nefndi áður. Ég hefði líklega getað sagt mér sjálf að ég hafði enga burði til að snúa fyrsta hringinn á túninu án þess að vefja girðingarnetinu inn í snúningsvélina eða bakka stóra heyvagninum inn í garðinn fyrir neðan húsið án þess að keyra niður hliðstólpann. Ég væri að ljúga ef ég segði að þú hefðir tekið þessu með jafnaðargeði. Ég fékk romsuna og átti hana skilið, þannig var það. Ég uppskar eins og ég sáði.

En þetta var allt hluti af fegurðinni í sveitinni, þú kenndir mér að vinna og fólst mér verkefni eins og öðrum, allir hjálpuðust að, hvort sem það var við umhirðu dýra, heyskap eða girðingarvinnu. Þú leyfðir mér að spreyta mig á ýmsum verkum og mikið var stoltið þegar vel tókst til. Þó er ég viss um að vinnuframlag mitt er stærra í minningunni en raunin var. Á kvöldin var svo eitthvað gert sér til skemmtunar, farið á hestbak, í Seljavallalaug eða jafnvel á íþróttaæfingu í Gunnarshólma.

Dvölin hjá ykkur gaf mér allt sem barn þarf og svo mikið meira. Reglu, öryggi og endalausa hlýju. Fyrir það get ég seint þakkað ykkur Sæbjörgu. Þessi tilfinning hvarf aldrei, það hefur alltaf verið jafn gott að koma til ykkar og rölta í fjárhúsið eða bara kúra undir teppi fyrir framan sjónvarpið. Ég mun sakna þess mikið, Laugi minn, að fá hlýja faðmlagið þitt og heyra þig kalla mig Lóu litlu. Þinn tími var kominn og ég veit að vel er tekið á móti þér í Sumarlandinu. Skarð þitt verður aldrei fyllt og tómarúmið mikið hjá Sæbjörgu og öllu þínu fólki. Lífið heldur áfram en ég hugga mig við það að um ókomna tíð get ég hugsað til samverunnar með þér með bros á vör og þakklæti í hjarta.

Eygló Svava Gunnarsdóttir (Lóa).

Traust. Það er fyrsta orðið sem mér kom í hugann þegar ég frétti óvænt andlát Guðlaugs þar sem ég var á ferð austur á Hornafirði. Guðlaugur ver einn þeirra ógleymanlegu bænda sem ég hef notið að kynnast í starfi mínu.

Fyrst mun ég hafa kynnst honum á héraðssýningu hrúta sem haldin var í Gunnarsholti um 1980. Þeir höfðu nokkrir þessir þekktu Norðurhjáleigubræður flutt vestur í Ásahrepp á sjöunda og áttunda áratugnum en Guðlaugur, þegar hér er komið sögu, fært sig um set með fjölskyldu sinni austur að Voðmúlastöðum frá Sumarliðabæ en á Voðmúlastöðum bjó hann til æviloka. Þessir bændur ásamt þeim sem áfram bjuggu í Norðurhjáleigu urðu á síðasta hluta aldarinnar einir allra þekktustu bændur á Suðurlandi og allir þekktir sem einstakir búfjárræktarmenn. Það var sem slíkur sem ég fyrst og fremst kynntist Guðlaugi.

Á fyrstu árunum eftir að ég kynntist Guðlaugi tengdust samskipti okkur fyrst og fremst sauðfé. Þar var hann einn með meiri fjárræktarmönnum landsins. Afskaplega glöggur smekkmaður í vali á slíkum gripum. Á síðasta áratug aldarinnar dró hann vegna framleiðsluaðstæðna ákaflega mikið úr fjárbúskapnum, en átti smáhjörð, með afbrigðum glæsilega sem var ógleymanlegt að sjá síðast hjá honum á vordögum fyrir rúmu ári. Síðasti fundur minn með honum var fyrir tæpum mánuði þegar ég heimsótti Sæbjörgu og hann á sitt glæsilega heimili sem þau höfðu byggt sér fyrir elliárin á Voðmúlastöðum. Var ég þar að fá að láni gömlu fjárbækurnar sem nú verður ekki aftur að mögulegt að skila til hans.

Þau hjónin bjuggu ætíð blönduðu búi og á síðari hluta búskapartímans tók kúabúskapurinn alveg yfirhöndina. Þær voru einnig ófáar ferðirnar sem ég átti í fjósið til þeirra hjóna. Hið sístækkandi kúabú, sem þau skiluðu fyrir nokkrum árum í traustar hendur dóttur sinnar og tengdasonar, hefur líkt og fjárbúið verið meðal þeirra allra öflugustu hér á landi. Gripirnir í fjósi voru líka margir glæsilegir og fegurðardrottningin Klukka hverfur seint úr minni.

Um leið og Guðlaugur var þannig einn snjallasti búfjárræktarmaður landsins mun hann ekki síður hafa stundað jarðrækt af líkri list. Guðlaug hitti maður líka afar oft á fræðslufundum bænda þar sem hann hafði alltaf eitthvað jákvætt og fræðandi að leggja til málanna.

Búskapur Guðlaugs einkenndist því af yfirvegun og vandvirkni, vakti traust allra. Slíkt traust báru nágrannar hans einnig til hans í margvíslegum félagsmálum. Hann bar sjálfur mikið traust til hinnar íslensku moldar sem hann hafði lífsviðurværi sitt af. Sæbjörg kona hans stóð ætíð við hlið hans sem klettur og greinilegt að milli þeirra ríkti einstakt traust og samheldni í öllum störfum. Bú þeirra var fjölskyldubú eins og þau urðu best og sönnust.

Að leiðarlokum vil ég þakka það traust sem ég naut ávallt hjá Guðlaugi og þá miklu búskaparvisku sem ég hef fengið til fjölda ára að þiggja frá þeim hjónum. Slíkt er ómetanlegt.

Sæbjörgu og börnum hennar og Guðlaugs votta ég innilega samúð við fráfall þessa trausta manns sem Guðlaugur ætíð var.

Jón Viðar Jónmundsson.

Þeim fækkar ört þeim bændum er settu svip sinn á uppbyggingu Austur-Landeyja. Einn þeirra manna var sveitarhöfðinginn Guðlaugur Jónsson, Voðmúlastöðum. Guðlaugur var sannur ræktunarmaður. Sauðfé hans bar af. Allir vildu eignast kynbótahrút frá Guðlaugi. Hann var frumkvöðull í skjólbeltagerð og kornrækt. Tún sín endurræktaði hann og voru gæði heyja af Voðmúlastaðatúnunum ein mestu á landsvísu, enda átti hann afurðabestu kýr hér í sveit.

Guðlaugur var mikill félagsmálamaður, sat í sveitarstjórn og hinum ýmsu nefndum og ráðum og var oft vitnað í tillögur hans.

Það er vandaverk að sitja kirkjustað en því hlutverki skilaði hann með miklum sóma sem og öðru er hann tók að sér.

Þá var hann virkur í Kirkjukór Landeyja um áratuga skeið og hafði afar þýða bassarödd. Ég átti því láni að fagna að standa við hlið hans í kórnum og fór ávallt vel á með okkur. Það er lán að fá að starfa með slíkum manni, sem Guðlaugur var.

Það var gæfa Guðlaugs að hafa Sæbjörgu Gróu Tyrfingsdóttur sér við hlið, hún var hans styrka stoð í einu og öllu. Samhentari hjón eru vandfundin. Gagnkvæm virðing og væntumþykja. Sendi ég Sæbjörgu og fjölskyldu samúðarkveðju mína.

Ég kveð minn kæra söngbróður með virðingu og kæru þakklæti.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi.

Hafðu hjartans þökk.

Sveinbjörn frá Krossi.